135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:45]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hæstv. ráðherra að Seðlabankinn þarf fleiri vopn í sína verkfærakistu. En Seðlabankinn hefur verið að vinna. Vandinn er sá að ríkisstjórnin sem stjórnar efnahagsmálum Íslandi og er kjörin til þess hefur ekki verið að fást við þessi mál af neinu tagi. Hún hefur hvergi verið að taka á eins og við höfum marga umræðuna tekið um hér í þinginu. Hún hefur hvergi tekið á. Hún hefur gefið í verðbólgueldinn og hún hefur sagt við fólkið: „Það er ekkert að gerast. Verið þið bjartsýn og trúuð. Það breytist ekkert.“ Þess vegna fara fjölskyldurnar, margar með yfirdráttinn sinn. Sumar hafa meira að segja breytt verðtryggðum krónum í erlend lán. Mikil áföll dynja á heimilunum núna vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og heimilin eru skuldug, sveitarfélögin eru skuldug og fyrirtækin eru skuldug og það reynir mjög á það ástand.

Ég vil hins vegar biðja hæstv. ráðherra að snúa ekki út úr ummælum mínum eða stefnu Framsóknarflokksins. Við höfum fyrst og fremst sagt að við eigum krónuna og verðum að vinna með henni. Hún verður hér mörg ár enn. En Framsóknarflokkurinn hefur sett í gang vinnu til þess að skoða hvort krónan sé of lítil í þessu litla hagkerfi okkar og við eigum að skoða stærri mynd.

Hæstv. ráðherra talaði einatt um evru hér, að það væri hægt að taka hana upp. Nú hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki hægt nema að ganga í Evrópusambandið og það er ekki nærri. Þess vegna höfum við sagt að auðvitað geti það komið til greina með EFTA-þjóðunum, með Bretum, með Dönum — það er ýmislegt sem kemur til greina. Aðalatriðið er að vinna úr verkefninu. Við höfum ekki bundið okkur í eitt eða neitt fyrir fram. Við vitum að hægt er hægt að laga krónuna til og það er skylda okkar að fara yfir gallana á efnahagsstjórninni og þeim tækjum sem Seðlabankinn hefur til þess að fást við hana. En (Forseti hringir.) hitt er líka stórt verkefni, að meta stöðu Íslands út frá framtíðinni eins og Framsóknarflokkurinn er nú að gera með færustu sérfræðingum.