135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunarinnar.

[13:33]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Nú ber svo við að á öllum flóum og fjörðum og miðunum hringinn í kringum Ísland hefur aldrei orðið vart við jafnmikinn þorsk eins og síðustu daga. Þetta fiskirí er búið að standa yfir núna á annan mánuð og virðist ekki vera neitt lát á. Er auðvitað gleðilegt og ánægjulegt að þetta skuli vera með þessum hætti. En það er aftur á móti sorglegt að við skulum ekki fá að veiða þorsk í auknum mæli miðað við það sem við erum að gera í dag. Við erum í sögulegum niðurskurði hvað þorskveiðar varðar og erum að veiða það minnsta frá stríðslokum. Þetta er fáránlegt miðað við ástand á fiskimiðum. Togararallið sem var haldið fyrir ári síðan sýndi þá að það var eitthvað til af stórum fiski en í mælingunum hjá togararallinu var talið að vantaði smáfiskinn, ungfiskinn, yngstu árgangana.

Eftir að togararallið var farið í fyrra og eftir að búið var að skera niður kvótann þá setjum við Íslandsmet í skyndilokunum. Við settum yfir 100 skyndilokanir á smáþorsk sem segir okkur að það var smáfiskur til, hrygning hafði heppnast tveim, þrem árum áður og nýliðunin var í lagi. Það segir þetta Íslandsmet í skyndilokunum.

Ekki nóg með það heldur er farið á hverju sumri í rækjurall og rækjurallið sýndi meiri þorsk á miðunum en við höfum átt að venjast á síðustu árum. Þessu til viðbótar hefur orðið vart við þorsk á djúpslóð í miklu dýpra vatni en við höfum átt að venjast, frá 400 föðmum og niður á 600 faðma á svokölluðu Hampiðjutorgi mitt á milli Íslands og Grænlands. Þetta var fiskur sem varð vart við meira að segja í vetur og mikið af honum í fyrrasumar þegar hann var að ganga yfir aftur, þ.e. af Íslandsmiðum yfir á Grænland og núna urðum við aftur varir við hann í febrúar þar sem hann var að ganga til Íslands til að hrygna.

Það er nú einu sinni þannig að þorskur virðir ekki neinar línur sem eru teiknaðar í sjókort, þ.e. landhelgislínur. Hann fer á milli svæða og það hefur alltaf verið sagt að þegjandi synda þorskar í ála og það á við núna eins og svo oft áður að það er sem betur fer að gerast. En við notum okkur ekki þann möguleika sem við höfum á að nýta þessar þorskgöngur. Við búum við togararall sem er alls ekki hæft til þess að mæla fiskgengd og er jafnvel að mæla fiskigöngur á röngum tíma. Ég held að stóra vandamál Hafrannsóknastofnunar sé að þeir taka ekki tillit til annarra veiðarfæra eins og netaralls sem var í sögulegu hámarki á síðasta ári. Þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Árið 2007 var sett Íslandsmet í lokun veiðisvæða á smáþorski og hvað hyggst hann gera í því? Ætlar hann að taka tillit til þessa? Ætlar hann að taka mark á þessu? Á síðastliðnu ári var meiri þorskafli í rækjuralli en hefur verið á síðustu árum. Í svonefndu netaralli á síðasta ári var meiri þorskafli en frá upphafi rallsins. Í febrúar á þessu ári voru íslensk skip að fá stórþorsk á svonefndu Hampiðjutorgi á milli Íslands og Grænlands. Hvað hyggst ráðherrann gera við þetta? Ætlar hann að halda áfram að byggja allar niðurstöður á svokölluðu togararalli og verður það hlutskipti okkar að tapa af möguleikum til þess að nýta þá fiskgengd sem er á miðunum? Það er að mínu mati fáránlegt. Það væri hægt að bæta við þorskveiðiheimildir núna. Við fluttum tillögu í haust um 40.000 tonn en í kosningabaráttunni töluðum við um að það væri allt í lagi að veiða (Forseti hringir.) 250.000 tonn á næstu þremur árum. (Forseti hringir.) Ég stend við það og held því fram að það sé alveg (Forseti hringir.) mögulegt.