135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:06]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hið síðara þá er það mjög athyglisvert og ég hef einmitt bent á að það er stór spurning hvernig viðskiptahallinn verður til og í hvað hann er notaður. Viðskiptahalli sem notaður var til að byggja Kárahnjúkavirkjun sem hefur sýnt sig að vera afskaplega arðbær og arðbærari en menn áttu von á er góður viðskiptahalli. Hann er indæll, hann mun standa undir sér einn og sér. Verst er náttúrlega í því sambandi að Kárahnjúkavirkjun skyldi hafa verið reist á vegum ríkisfyrirtækis, ég hefði viljað sjá hana í einkaframkvæmd en það var ekki vilji til þess. En það er góður viðskiptahalli. Viðskiptahalli sem er notaður til eyðslu er slæmur, það er rétt hjá hv. þingmanni.

Varðandi umræðuna í gær. Þetta voru 330 milljarðar sem er uppsafnað tap og þá er mikil spurning hvort það eigi yfirleitt að skattleggja söluhagnað af hlutabréfum. Hollendingar og Norðmenn hafa fylgt þeirri heimspeki að söluhagnaður af hlutabréfum sé hagnaður framtíðarinnar, hann er ekki orðinn til. Það er verið að selja hlutabréf á hærra verði en innra virði fyrirtækisins. (Gripið fram í: Einhver fær peninginn.) Einhver fær peninginn en það er einhver annar sem borgar hann, einhverjir tveir einstaklingar, annar borgar en hinn fær. Einhvern tímann í framtíðinni fær sá sem kaupir arðinn af fyrirtækinu en þá er hann líka skattlagður. Það er hugsunin á bak við það að skattleggja ekki þennan hagnað, enda sýnir það sig að hann er ákaflega kvikur. Hann er bara horfinn, hagnaður síðustu tveggja ára er farinn. Það er bara ekkert annað. Ég hugsa að þeir 330 milljarðar sem menn eru að tala um hér verði eitthvað miklu minna eftir atburði síðustu vikna. Það sýnir bara hvað þetta er kvikur skattstofn og hvað í rauninni er lítið varið í hann sem raunverulega peninga.