135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef það varðar sjálfsákvörðunarrétt Georgíu eða Úkraínu eða einhverra annarra þjóða að ganga í NATO, rétt eins og NATO-þjóðir séu þar með orðnar einhvers konar Sameinuðu þjóðir eða Evrópuráð sem allir eigi frumburðarrétt til að ganga í, hvað þá með sjálfsákvörðunarrétt Tíbeta? Burt séð frá sögunni, ef þjóð sem þar býr velur þá leið að höfða til aukins sjálfsákvörðunarréttar síns þá hlýtur hann að sjálfsögðu að vera til staðar. Enda er ekki um það deilt, hvað sem landamærum líður, að Tíbetar uppfylla öll skilyrði sem gerð eru til að teljast þjóð með eigin tungumál, menningu, afmarkað landsvæði o.s.frv.

Ég er ekki talsmaður einhverrar gamallar skiptingar í austur og vestur og sakna hennar ekki. Það stjórnar ekki nálgun minni gagnvart stækkun NATO eða uppsetningu eldflaugavarnakerfis Bandaríkjamanna í Evrópu. En ég tek mark á þjóðum eins og Þjóðverjum og Frökkum og öðrum slíkum sem hafa mikla þekkingu á málefnum meginlands síns og vilja að stigið sé varlega til jarðar gagnvart aðgerðum sem kunna að færa okkur aftur á bak í tíma í átt til meiri spennu og „pólaríseringar“ álfunnar. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að halda öllum gangvegum opnum við Rússa og nota þær brýr sem til staðar eru í gegnum Evrópuráðið og slík samtök og eins í gegnum góð tengsl, t.d. Þjóðverja við Rússa.

Ég vitna til 37. töluliðar yfirlýsingar NATO-fundarins. Þar er sagt að við, þ.e. fulltrúar þjóðanna sem undirrita yfirlýsinguna, viðurkennum umtalsvert framlag í þágu varna bandalagsríkjanna sem áætluð uppsetning bandaríska eldflaugavarnakerfisins er. Síðan er NATO-stjórninni falið að vinna að því að öll aðildarríkin færist undir þessa regnhlíf. Með þessu finnst mér verið að skrifa upp á þetta fyrirbæri og spurning mín um það er: Hvenær tók ríkisstjórnin þá (Forseti hringir.) ákvörðun að styðja það fyrirvaralaust og fortakslaust og jafnvel fagna því að þessi aðgerð sé undirbúin sem mér sýnist (Forseti hringir.) að auki á spennu og viðsjár í álfunni en ekki öfugt?