135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Kanada.

543. mál
[20:30]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Kanada, sem undirritaður var í Davos í Sviss 26. janúar sl.

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Kanada hófust á árinu 1998. Þær gengu vel framan af og um mitt árið 2000 lá fyrir nánast fullgerður samningstexti. Þá sigldu viðræðurnar hins vegar í strand vegna þeirrar kröfu Kanadamanna að skip, bátar og önnur sjóför yrðu undanþegin ákvæðunum um niðurfellingu tolla, en EFTA-ríkin gátu alls ekki fallist á þá kröfu. Samningaviðræður hófust ekki á ný fyrr en um haustið 2006. Eftir að samkomulag hafði náðst um niðurfellingu tolla af skipum og sjóförum til Kanada á tilteknu aðlögunartímabili, svo og um önnur útistandandi ágreiningsefni, lauk viðræðunum í júní 2007. EFTA-ríkin hafa nú gert fríverslunarsamninga sem ná til 16 ríkja eða ríkjahópa.

Samningurinn, sem er sá fyrsti sinnar tegundar sem Kanada gerir við ríki í Evrópu, nær fyrst og fremst til vöruviðskipta. EFTA-ríkin og Kanada munu þegar við gildistöku samningsins fella niður tolla á sjávarafurðir og iðnaðarvörur sem upprunnar eru í landi gagnaðila, þó með þeirri undantekningu að Kanada er veittur allt að fimmtán ára aðlögunartími til niðurfellingar tolla á skip og sjóför. Samningurinn mun því hafa í för með sér niðurfellingu tolla á ýmsar vörur sem framleiddar eru hér á landi við útflutning þeirra til Kanada. Sem dæmi má nefna þær sjávarafurðir sem bera toll við innflutning til Kanada, svo og útivistarfatnað, fiskikör og aðrar vörur úr plasti, vogir, vélar og tæki. Þessar iðnaðarvörur bera í dag margar hverjar tolla á bilinu 6–18% við innflutning til Kanada. Má því ætla að samningurinn muni liðka fyrir frekari útflutningi íslenskra iðnaðarvara á Kanadamarkað.

Í fríverslunarsamningnum er jafnframt kveðið á um lækkun eða niðurfellingu tolla af unnum landbúnaðarvörum. Hvert EFTA-ríki fyrir sig og Kanada hafa síðan gert tvíhliða samninga um lækkun eða niðurfellingu tolla af tilteknum óunnum landbúnaðarvörum. Sem dæmi um bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar landbúnaðarvörur má nefna að tollar munu lækka eða falla niður við innflutning á íslensku kindakjöti og skyri til Kanada. Sem dæmi um landbúnaðarvörur frá Kanada sem njóta munu lækkunar við innflutning til Íslands er ýmiss konar frosið grænmeti, þar með talið frosnar franskar kartöflur.

Í samningnum eru ákvæði um að taka upp viðræður um þjónustuviðskipti innan þriggja ára. Jafnframt er í samningnum að finna ákvæði um samkeppnismál, opinber útboð, samstarf hvað varðar fjárfestingar og þjónustuviðskipti auk stofnanaákvæða og ákvæða um lausn ágreiningsmála.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.