135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[21:12]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sem hæstv. utanríkisráðherra segir um þetta efni. Ég tók reyndar fram að ég væri sannfærður um að um þetta væri enginn sérstakur ágreiningur. En það er stundum þannig að það þarf samt að koma hlutunum í verk og framkvæma þá jafnvel þó að allir séu sammála um hvað eigi að gera. Ég er jafnframt alveg handviss um að það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ábyrgðin á því hvernig þessi mál hafa þróast í þinginu eru ekki bara ráðuneytisins, það er ekki síður þingsins sjálfs, bæði nefndarinnar og stjórnar þingsins. Nú verðum við vör við það að áhugi er á því, bæði hjá núverandi forseta eins og ég hef skilið það og enn fremur hjá formanni utanríkismálanefndar, að taka þetta nýjum tökum.

Ég get sagt það t.d. að það kom mér spánskt fyrir sjónir þegar ég kom til starfa í þingmannanefnd EFTA að það eru dæmi um það að þingmannanefndin hafi verið á fundum með sameiginlegu þingmannanefndinni og á svipuðum tíma hafi verið fundir hjá sameiginlegu EES-nefndinni og þar hafi verið teknar ákvarðanir sem þingmannanefndin hafði ekki hugmynd um — frétti fyrst af í fjölmiðlum einhverjum dögum síðar — og var þá kannski á fundi á sama tíma og jafnvel á sama stað. Þetta er auðvitað ekki góð stjórnsýsla og ekki góður bragur á þessu. Á þessu þarf að verða breyting og ég fagna því að góð samstaða er um það á hv. Alþingi að koma þessum málum í betra horf.