135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

ferð ráðuneytisstjóra til Írans.

[10:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi hvort ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hafi farið til Írans í einkaerindum eða á vegum ráðuneytisins þá er því til að svara að ráðuneytisstjórinn fór til Írans á vegum utanríkisráðuneytisins m.a. til að liðka fyrir íslenskum fyrirtækjum sem reka viðskiptaerindi í Íran. Um leið fór hann til að ræða við íranska stjórnmálamenn um stuðning við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eins og við gerum ævinlega þegar við förum til annarra landa og eigum þess kost að ræða við ráðamenn í viðkomandi ríkjum.

Það er vissulega rétt sem fram kemur hjá þingmanninum að Írönum hafa verið sett ákveðin skilyrði vegna kjarnorkumála en það hafa ekki verið rofin samskiptin við Íran. Það er viðskiptasamband við Íran, það er ekki búið að slíta neinu stjórnmálasambandi við landið. Að sjálfsögðu eru þjóðir heims í margháttuðum viðskiptum við Íran eftir sem áður. Það á alveg við um okkur eins og aðra og engin ástæða til að klippa á þau tengsl sem við höfum eða leggja stein í götu þeirra íslensku fyrirtækja sem eru með viðskipti í Íran. Í því sambandi vil ég nefna að það var út af fyrirtæki sem þarna átti hlut að máli og fyrirtækið var Actavis.