135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[11:03]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta svar og deili um margt skoðunum hennar, ekki hvað síst um þau hughrif sem maður verður fyrir austur á Hornafirði núna. Ég kem þangað mjög oft og þar binda menn miklar vonir við þetta.

Ég vil samt ítreka spurningar mínar. Aðalspurningin snýr að því hvað líði staðsetningu á framkvæmdastjórastöðu Vatnajökulsþjóðgarðs, hvort sú starfsstöð verði í Reykjavík eins og hún hefur verið síðan framkvæmdastjóri var ráðinn — mér skilist að starfsstöð hans hafi verið hér í Reykjavík og ég tel það mjög miður. Ef við ætlum að byggja upp borgríki með þeim hætti að meira að segja framkvæmdastjórastaða yfir Vatnajökulsþjóðgarði eigi að vera hér við Faxaflóann séum við komin inn á mjög alvarlega villubraut.

Varðandi þau störf sem umhverfisráðherra tilgreindi að búið væri að auglýsa spyr ég eftir því hversu mörg af þeim eru heilsársstörf og að hve miklu leyti það er aukning frá því sem áður hefur verið, en fagna að sjálfsögðu öllu því sem gott er gert í þessum efnum.