135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt bara mjög góð umræða. Það kom ekki á óvart að hv. þingmenn Vinstri grænna sögðu það sem þeim er tamast, það var: Nei, takk. Og eru þau kannski orðin nokkurs konar einkunnarorð flokksins.

Hins vegar verður að segjast eins og er að eftir að hafa hlustað hér á hv. þingmenn Framsóknarflokksins spyr maður sig: Hvað voru þeir að lesa? Og hvers vegna er það svo að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem ég fagna að er farin að kannast við sum verk ráðherra Framsóknarflokksins — enginn hefur gagnrýnt harðar ráðherra Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum en hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir — vogar sér að skrökva því að það sé búið að fresta eitthvað framkvæmdum við spítalann. Vogar sér að gera það. (VS: Þú ert að því.) Það frestast ekki nokkurn skapaðan hlut og það hefur margoft komið fram en hún hikar ekki við að leggja það fram. (VS: Frestaðist víst með nýju nefndinni.) Ekki til í dæminu.

Virðulegi forseti. Ef menn halda að það sé forsenda þess að reisa spítala að hafa Alfreð Þorsteinsson á launum er það gríðarlegur misskilningur. (Gripið fram í.) Aðeins út af þessu, hér hafa menn ekki rætt eitt sem er svolítið mikilvægt. Menn hafa haldið því fram að hér hafi verið niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það er alveg ljóst af þessari skýrslu að þetta er allt rugl, tóm þvæla. Þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir er alveg ljóst að við setjum mikið af fjármunum í þennan málaflokk og meira en aðrar þjóðir.

Við erum að eiga við það eins og allar aðrar þjóðir að sjá til þess að við séum með eins góða þjónustu og mögulegt er fyrir alla landsmenn. OECD segir: Þið verðið að nýta frekar kosti einkareksturs en þið hafið gert fram til þessa. (Gripið fram í: Meira en…?) Það er það sem OECD er að segja og ef hv. þingmenn Framsóknarflokksins geta ekki lesið það er bara sjálfsagt og eðlilegt að hjálpa þeim við það. Hins vegar kemur ekki á óvart að aðrir hér í þessum sal sem hafa haldið því ranglega fram að hér hafi verið um niðurskurð að ræða ræði það vonandi ekki lengur vegna þess að það er augljóslega ósatt. Þeir segja þegar kemur (Forseti hringir.) að þessum ágætistillögum: Nei, takk, sem eru þeirra einkunnarorð. (ÖJ: Þetta er makalaust.)