135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[14:11]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég get ekki annað en lýst yfir stuðningi við þessa tillögu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég vona svo sannarlega að eitthvað verði úr þessu meira en orðin tóm, að ríkisstjórnarflokkarnir sjái sóma sinn í því að bakka upp þessa tillögu hv. þm. Guðna Ágústssonar. (EMS: Þú ert þó ekki að efast um það?) Það vill nú svo til að ég efast um að ríkisstjórnarflokkarnir hleypi slíkri tillögu í gegnum þingið, það er oft þannig að þeir gera það ekki þegar um þingmannamál er að ræða.

Ég kom hingað ekki til þess eins að dásama þessa tillögu heldur verð ég kannski með breytingartillögu við hana þess efnis að umrætt skáksetur verði sett upp einhvers staðar nálægt þeim stað þar sem Fischer er jarðaður. Ég held að það væri alls ekki vitlaust að huga að Selfossi eða nágrenni undir slíkt skáksetur. Ég held að það væri af því góða að nýta tækifærið — það þarf ekki allt að vera í Reykjavík.

Spasskí kom hingað í heimsókn fyrir stuttu. Hann kvartaði undan því að tölvur væru farnar að hafa áhrif á skákheiminn og skáklistina. Hann hefur sjálfur sett upp setur til þess að kenna ungu fólki að nýta sér tölvur í sambandi við skákina og það er kannski hluti af því sem hv. þm. Guðni Ágústsson ætti að hugleiða í sambandi við umrætt skáksetur, hvort ekki sé þörf á því við breyttar aðstæður. Ég á sjálfur tölvu sem mátar mig alltaf og ég kann því illa að tapa alltaf. Ef ég er með hana á sterkasta styrkleika vinn ég hana aldrei, það er helst ef ég set hana á einhvern barnastyrk að ég á smásjens.

Ég ætla að lýsa yfir stuðningi við tillöguna og vona að menn sjái sér fært að reisa umrætt skáksetur einhvers staðar nálægt grafreit Fisc hers.