135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

stefnumörkun í málefnum kvenfanga.

514. mál
[14:55]
Hlusta

Flm. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir það sem hefur verið sagt hér um þessi mál. Það er afar brýnt að farið verði í það núna að bæta aðstöðu kvenfanga sem er að mörgu leyti mjög slæm. Konur sem hafa verið vistaðar í fangelsum eru þar af ýmsum ástæðum og brot þeirra misjöfn. Aðstaðan sem hefur verið í boði hingað til mætir ekki þörfum þeirra á viðunandi hátt.

Það er alltaf verið að ræða um mikinn kostnað við fangelsi og að það sé mjög dýrt að vista fanga og það er verið að spara, það er viðkvæðið. Ég tel að í raun og veru sé mun ódýrara að veita föngum viðunandi aðbúnað í fangelsi vegna þess að þá er í raun verið að vinna að forvörnum því það hefur sýnt sig að fái fangar ekki viðunandi aðstoð eru meiri líkur á að þeir komi aftur og það viljum við ekki.

Ég tel því að þetta sé mjög brýnt. Ég held að blönduð fangelsi eins og við þekkjum þau í dag sé ekki framtíðin. Við verðum að fara að huga að því að þarfir kvenna og karla eru mjög mismunandi og þessu þarf að breyta.

Ég legg til að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til allsherjarnefndar og ég vona að ríkisstjórnin muni fara eftir beiðni okkar.