135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[16:31]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég segja, eins og hv. þingmaður Valgerður Sverrisdóttir, að ég tel gott að þetta frumvarp sé komið fram og ég geri ekki athugasemdir við það. En við áskiljum okkur auðvitað allan rétt til þess að fjalla mjög nákvæmlega um það í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar mun verða grannt hlustað eftir þeim sem í greininni. Ég held að það gæti í sjálfu sér leitt til einföldunar að fella undir einn lagabálk eldi vatnafiska og nytjastofna sjávar hér á landi. En þó er ekki víst að þeim sem eru í greininni finnist það.

Það er mikilvægt að markmið frumvarpsins hér er eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði, að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. En síðan koma aðrar aukasetningar eins og að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Það tel ég að sé í rauninni algjört forgangsverkefni við allt fiskeldi í landinu, þ.e. að tryggja verndun villtra nytjastofna, bæði í vötnum, ám og í sjó.

Þegar ég skoða þetta frumvarp og athugasemdir við það, t.d. þar sem fjallað er um leyfisveitingar og staðbundið bann við starfsemi eins og í 6. gr., þar sem er ákvæði um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti, að fenginni umsögn frá ýmsum aðilum, takmarkað eða bannað fiskeldi og ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fer fram samkvæmt lögum þessum, og næstu málsgrein þar sem er rakið hvað þarf að skoða í þessu sambandi, þ.e. að vernda villta nytjastofna bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum, þá sakna ég þess, hæstv. ráðherra, að það skuli ekki vera hér hrein tilvísun í mikilvægi þess að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika eins og við höfum skuldbundið okkur til með aðildinni að Bernarsamningnum. Með aðild honum höfum við skuldbundið okkur til varðveita líffræðilegan fjölbreytileika í þeim villtu stofnum sem hér lifa, líka þegar þeir eru teknir inn til eldis.

Ég hygg að menn geti verið mér sammála um að það hafi ansi mörg mistök verið gerð á fyrsta fiskeldisskeiðinu okkar í laxinum. Eitt af því var að mínu viti blöndun stofna, íslenskra nytjastofna í einn pott þar sem ekki var hugað að sérkennum hvers stofns. Ég held því miður að þá hafi m.a. einn af okkar öflugustu stofnum, sem gaf hvað mestar vonir um eldi, hreinlega horfið, m.a. vegna slíkrar blöndunar.

Af sömu ástæðum vara ég eindregið við því, herra forseti, að sett verði á laggirnar ein stór seiðaeldisstöð fyrir þorskeldi í landinu. Ég vísa til þess að nýlegar kenningar og rannsóknarniðurstöður, bæði frá Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun, benda til þess og jafnvel sanna að það eru fleiri en einn stofn þorsks hér við land sem þýðir að einkenni stofnanna, bæði vaxtarhraði, hugsanlega kynþroskaaldur, útlit og hlutfall lengdar og þykktar getur verið mismunandi. Líftími jafnvel líka. Það væri algert óráð að ætla sér að blanda í einn pott, eina stóra seiðaeldisstöð á vegum ríkisins í því skyni að framleiða hér góðan þorskfisk til eldis. Til þess að gera það þarf auðvitað að finna út þann stofn sem er hentugastur í eldi af þeim sem við eigum fyrir og gæta þess að erfðamengi glatist ekki við fiskeldi.

Þegar ég fékk þetta frumvarp fyrst í hendur, hæstv. forseti, þá rann mér eiginlega blóðið til skyldunnar, en hafandi verið framkvæmdastjóri nokkuð stórrar fiskeldisstöðvar og formaður í Tryggingasjóði fiskeldislána um tíma þá þekki ég sögu fiskeldisins hér á fyrri skeiðum mjög vel, og mig rak eiginlega í rogastans þegar ég las 22. gr., um refsingar, en þar segir, með leyfi forseta:

Það varðar stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar, þ.e. ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi og í þriðja lagi ef fiskeldisstöðvar gefa ekki lögboðnar skýrslur um starfsemi sína eða veita eftirlitsmönnum rangar upplýsingar, og í fjórða lagi ef fiskeldisstöðvar gerast að öðru leyti brotlegar gagnvart lögum þessum.

Eins og ég segi er það fyrir mér algert aðalatriði að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og erfðamengi þeirra villtu stofna sem eru í landinu og hafinu í kringum okkur. Ég skal ekki draga úr því að það er gríðarlega ábyrgðarmikið að reka stöðvar sem þessar einmitt vegna þess.

Þess vegna skoðaði ég pínulítið hvernig þessu er háttað í öðrum lögum. Það kemur í ljós að í lögum varðandi mengun við strendur landsins eða í hafi þá má leggja á dagsektir ef ekki er farið að tilmælum og ef um stórfellt brot er að ræða varðar mengun við strendur landsins eða í hafi fangelsi allt að tveimur árum.

Ég kannaði líka hvaða viðurlög eru varðandi veiðar á fuglum sem ekki má veiða, t.d. að drepa örn eða fæla í burtu örn. Þar kemur í ljós að þar er líka ákvæði um að beita megi fangelsi allt að tveimur árum. Ég er ekki refsiglöð manneskja þótt ég telji að á ásetningsbroti þar sem íslenskri náttúru og jurtastofnum er stefnt í hættu þurfi auðvitað að taka mjög hart, en mér liggur við að segja, hafandi staðið í þessum verkum sjálf, nánast úti í ballarhafi eins og aðstæður þar eru, og fylgst með öllum þeim fjölda sem á þessum tíma ráku fiskeldis-, hafbeitar- eða seiðaeldisstöðvar við landið, að það væru ansi margir sem hefðu mátt að verma fangelsisbekki miðað við þessi ákvæði um viðurlög.

Nú sé ég að hér er vísað í að þetta sé svona í lögum frá 2006, um eldi vatnafiska, þannig að hér er ekki um nýmæli að ræða. En ég spyr mig að því hvort þetta jafngildi ekki í rauninni banni við starfsemi eins og þessari. Ég segi fyrir mig að ég mundi óttast verulega að taka að mér rekstur eða stjórnarsetu í fiskeldisstöð, laxeldisstöð eins og ég rak, eða seiðaeldisstöð með þessum lagaákvæðum.