135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Búrfellsvirkjun.

427. mál
[14:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég held að það frumvarp sem ég hef lagt hér fram og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur nú lýst nokkuð góðum skilningi á, ef ekki stuðningi, um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði geti gert að raunveruleika þá stöðu sem hv. þingmaður kallaði hér eftir. Ég held að þá verði nefnilega miklu auðveldara að greina þarna á milli. Það er eitt af meginmarkmiðunum sem fylgja því frumvarpi að reyna að gera það skiljanlegra og ljósara.

Að því er varðar hv. þm. Mörð Árnason hafna ég því algjörlega að hér hafi verið um ágiskanir að ræða. Við þingmennirnir þrír sem höfum tekið þátt í þessari umræðu lærðum stærðfræði við sama menntaskóla og sumir reyndar við háskóla líka, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, og það þarf ekkert mjög flókna útreikninga til að vinna úr tölum sem liggja fyrir til að geta nálgast það hver kostnaðurinn er við framleiðslu á kWst. ef einvörðungu er verið að ræða um reksturinn. Ég kemst reyndar að tölu sem er einungis 1/3 af því sem hv. þingmaður nefndi áðan. Ég vil samt geta þess að ég bar það undir vísa menn sem ekki tengjast þó Landsvirkjun og þeim fannst þessi einfaldi útreikningur ekki vera fjarri lagi. Það er ekki um ágiskun að ræða.

Síðan er alveg rétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði, og hefur hér áður komið fram, að það er dálítið umhendis að ekki sé hægt að nálgast þessar upplýsingar hjá Landsvirkjun. Þeir bera við skýringum sem í sjálfu sér er hægt að taka gildar, þeir bera við samkeppnisforsendum. Ef menn eru síðan að velta fyrir sér verði til stóriðju gera þær upplýsingar sem koma fram í skýrslum og ársreikningum Landsvirkjunar okkur kleift að reikna okkur mjög nálægt því verði sem menn greiða fyrir til stóriðju.

Það er svo rétt sem hv. þingmaður sagði, og ég hafði reyndar sagt áðan, það er töluvert hátt verð sem menn greiða hér fyrir flutning og dreifingu. Ástæðan er sú að við erum enn að byggja upp (Forseti hringir.) dreifikerfi okkar, samanber sameiginlegt áhugamál okkar um að endurbæta reksturinn. Það kostar peninga, marga milljarða.