135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:43]
Hlusta

Guðný Hrund Karlsdóttir (Sf):

Herra forseti. Stofnmælingar, mæling botnfisks á Íslandsmiðum sem fór fram 26. febrúar til 18. mars sl. mætir mikilli gagnrýni og er sú gremja að mörgu leyti skiljanleg þegar á sama tíma og þorskstofninn mælist slakur er mokveiði af feitum og vænum fiski á miðunum. Fáir efast samt um mikilvægi þess að fagleg og nákvæm rannsókn fari fram á fiskstofnunum. Hefur Hafrannsóknastofnun verið að reyna að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið, t.d. með þeim 50 aukatogum sem bætt var við núna síðast og eru til bóta.