135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

ferjusiglingar á Breiðafirði.

[15:23]
Hlusta

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svör hans. Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að hann skuli ekki getað tekið af skarið hér og nú.

Eins og við vitum hafa byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum þurft að taka á sig miklar aflaskerðingar á síðustu missirum vegna fyrirmæla stjórnvalda. Ferðaþjónustan vegur því þungt á þessu svæði og því finnst mér í lagi að samgönguyfirvöld taki vel á þessum málum.

Það er þungt högg fyrir byggðarlögin fyrir vestan að fella niður ferðir nú í sumar sem nemur fjórum vikum án þess að til staðar séu viðunandi samgöngur á vegum. Viðbótarkostnaður ríkisins við það að hafa óbreytt ástand er hverfandi miðað við hagsmuni fólksins sem þarf að lifa við þær aðstæður sem þarna eru yfir þann bjargræðistíma sem ferðamannatíminn er. Ég skora enn og aftur á samgönguráðherra að taka þetta til greina.