135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra vill ekki koma upp og svara því hvað kemur í staðinn. Hann kýs að víkja sér undan því að koma hér upp í annað skipti í andsvari við virðulegan þingmann Höskuld Þórhallsson.

Það er að verða ansi sérstakt að hlusta á ráðherra Samfylkingarinnar koma hérna ítrekað upp í opinberri umræðu og tala um fyrri ráðherra. Hvenær hættir þessi rispaða plata að hljóma? Þetta er verða bara hálfhallærislegt að mínu mati. Í hvert einasta skipti sem reynt er að fara í einhverja rökræðu við ráðherra, sérstaklega frá Samfylkingunni, miklu síður við hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, er farið að tala um fyrri ráðherra. Ég ætla að minna hæstv. samgönguráðherra á að hann er búinn að vera ráðherra síðan í maí í fyrra. Það er að verða ár síðan. Ekki er það Framsóknarflokkurinn sem er að leggja þetta mál fram. Það er ríkisstjórnin. Núverandi ríkisstjórn er að leggja það fram. Auðvitað var eðlilegt að skoða málið. Samband íslenskra sveitarfélaga vildi fara út úr sjóðnum. Auðvitað var eðlilegt að það væri skoðað. En ákvörðunin er tekin af öðrum. Hún er tekin af núverandi ríkisstjórn og það þýðir ekkert að vísa í einhverja fyrri ráðherra hér endalaust eins og rispuð plata. Það er ekki við hæfi.

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra: Hafði hæstv. samgönguráðherra samráð við Bændasamtökin? Það kom fram hér í máli hæstv. ráðherra að hann tók við þessu máli um áramótin og núna er að koma maí. Hæstv. ráðherra hefur haft fimm mánuði til þess að ræða við Bændasamtökin. Hafði hæstv. ráðherra samráð við Bændasamtökin um þetta mál og eru Bændasamtökin sátt við niðurstöðuna? Þessar eru mínar spurningar, virðulegur forseti, til hæstv. samgönguráðherra.