135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

niðurstaða PISA-könnunar 2006.

[13:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og ég gat um áðan þurfum við að horfa á þetta aðallega sem langtímamál, langtímahagsmunamál. Það kostar krafta og tekur tíma að snúa þessu stóra og mikla skipi sem menntamálaskipið er.

Hins vegar er rétt að það þarf að huga að málum til skemmri tíma og á næsta ári, 2009, verður farið aftur af stað. Þá fer OECD aftur af stað með könnun sína, þá með þungamiðjuna í náttúrufræði. Það þarf að auka hvatningu til fólks, foreldra fyrst og fremst, til að lesa meira fyrir börnin sín. Það þarf að reyna að fjölga raungreinamenntuðu fólki innan skólanna, efla raungreinakennaramenntunina með t.d. tímabundnu endurmenntunarátaki meðal raungreinakennara. Þetta er meðal þess sem við þurfum að gera og við þurfum að gera það í samstilltu og góðu samstarfi við sveitarfélögin. Þau reka grunnskólann en við höfum öll hagsmuni af því að efla okkur og styrkja. Við viljum auðvitað komast hærra á PISA-listanum, en við verðum að gera það markvisst og vera meðvituð um hvert við erum að fara.