135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

ríkisábyrgð til handa deCODE Genetics Inc.

570. mál
[14:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina en hún hljóðar svo:

„Mun ráðherra beita sér fyrir afnámi ríkisábyrgðar á skuldabréfum útgefnum af deCODE Genetics Inc., sbr. lög nr. 87 frá 15. maí 2002?“

Af orðalagi fyrirspurnarinnar mætti ætla að fyrirspyrjandi álíti að veitt hafi verið ríkisábyrgð á skuldabréfum útgefnum af deCODE Genetics Inc. og vilji nú vita hvort fjármálaráðherra muni beita sér fyrir afnámi þeirrar ríkisábyrgðar. Þannig liggur ekki í málinu, engin ríkisábyrgð hefur verið veitt á skuldabréfum útgefnum af umræddu fyrirtæki.

Með lögum nr. 87, frá 15. maí 2002, samþykkti Alþingi hins vegar að fjármálaráðherra væri heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum útgefnum af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE Genetics Inc., að fjárhæð allt að 200 milljónir bandaríkjadala, til fjármögnunar nýrri starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Samkvæmt lögunum skyldi ráðherra veita ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann mæti gild.

Sú heimild til ríkisábyrgðar sem lögin kváðu á um tengdist áformum umrædds fyrirtækis er nánar var lýst í frumvarpi til heimildarlaganna um uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi. Kom fram í frumvarpinu að talið væri að fjárfestingin gæti numið um 35 millj. kr. og gert ráð fyrir að 250–300 ný störf gætu skapast hér á landi á nokkrum árum ef fyrirætlanir fyrirtækisins gengju eftir. Frá upphafi lá fyrir að veiting ríkisábyrgðarinnar væri háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA en stjórnvöld töldu að hún uppfyllti skilyrði ríkisaðstoðar til rannsóknar- og þróunarverkefna eins og þau eru tilgreind í leiðbeiningarreglum stofnunarinnar um ríkisaðstoð. Málið var því sent ESA til skoðunar. Tók meðferð málsins hjá stofnuninni lengri tíma en vonir höfðu staðið til. Var athugun ESA enn ekki lokið þegar Íslensk erfðagreining ehf. tilkynnti stjórnvöldum í apríl 2004 að fyrirtækið væri búið að afla þess fjár sem það þyrfti til þess að byggja upp umrædda lyfjaþróun með því að selja breytanleg skuldabréf án ríkisábyrgðar. Fór fyrirtækið þess á leit við stjórnvöld að þau drægju málið til baka úr höndum ESA og var það gert.

Staða málsins er því einfaldlega sú að forsendur til veitingar umræddrar ríkisábyrgðar eru ekki lengur til staðar þar sem fyrirtækinu tókst að fjármagna þá lyfjaþróunarstarfsemi sem lagaheimildin laut að án ríkisábyrgðar. Lagaheimildin var ekki opin og tímalaus heimild heldur tengd fjármögnun tiltekinna lyfjaþróunaráforma sem síðan reyndist unnt að fjármagna á annan hátt. Þar með brustu efnisleg skilyrði fyrir nýtingu heimildarinnar. Engin þörf er þar af leiðandi á því að fella lögin formlega úr gildi þar sem skilyrði til að veita umrædda ríkisábyrgð eru ekki lengur fyrir hendi. Eru ýmis dæmi í gegnum tíðina um heimildarlög sem samþykkt hafa verið á Alþingi og haldast formlega í gildi þótt ekki hafi komið til þess að þau væru nýtt og efnisleg skilyrði til nýtingar þeirra séu ekki lengur til staðar.