135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

Grænlandssjóður.

569. mál
[14:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Lög um Grænlandssjóð voru sett árið 1980 og í 3. gr. þeirra segir að ríkissjóður skuli leggja í sjóðinn árin 1981 og 1982 125 millj. kr. hvort ár og ber þá að hafa í huga að um var að ræða gamlar krónur en myntbreytingin varð um áramótin næstu eftir að lögin voru sett.

Í minnisblaði sem lagt var fram í stjórn sjóðsins fyrir skömmu kemur fram að aðeins helmingur framlagsins hafi runnið til sjóðsins og talið er ljóst að seinni hluti framlagsins, sem kveðið er á um í lögunum, hafi ekki verið greiddur í sjóðinn.

Ég leyfi mér því að spyrja, virðulegi forseti, hæstv. forsætisráðherra:

1. Hafa verið greiddar úr ríkissjóði í Grænlandssjóð þær fjárhæðir sem mælt er fyrir um í 3. gr. laga um Grænlandssjóð, nr. 102/1980?

Í öðru lagi vek ég athygli á því að í 3. gr. sjóðsins er kveðið á um að stjórn sjóðsins skuli leita eftir framlögum í sjóðinn frá fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum. Mér leikur forvitni á að vita, virðulegi forseti, hver afraksturinn hafi orðið í þeim efnum og spyr því hæstv. ráðherra:

2. Hve mörg framlög hafa borist í sjóðinn frá fyrirtækjum, stofnunum, félagssamtökum og einstaklingum og hvað nema þau hárri fjárhæð samtals?

Í þriðja lagi, í ljósi þess að sjóðurinn er ekki öflugur — eigið fé hans er rétt liðlega 36 millj. kr. og hann hefur úthlutað liðlega 1 millj. kr. í nýjustu úthlutun sinni — spyr ég hæstv. ráðherra:

3. Er ráðherra reiðubúinn til þess að efla starfsemi Grænlandssjóðs með sérstökum framlögum úr ríkissjóði?

Ég hygg, virðulegi forseti, svo að ég setji fram skoðun mína á þessu, að vel væri viðeigandi að við settum meira fé til sjóðsins, efldum það starf sem honum er ætlað að beita sér fyrir og leiddum hugann að auknum samskiptum Íslendinga við þessa nágrannaþjóð sína.