135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki ofmælt að ástandið í efnahagsmálum er mjög alvarlegt og alvarlegast er að við sitjum uppi með gersamlega aðgerðarlausa ríkisstjórn sem ber reyndar ábyrgð á því hvernig komið er. Hefur þar ekki orðið nein breyting á þótt Samfylkingin tæki þar mál Framsóknarflokksins sýnist mér. (VS: Það hefur versnað mikið.) En hvað er það sem ríkisstjórnin leggur þá næst fram og telur brýnast í efnahagsumræðunni? Jú, það er einkavæðingarfrumvarp um heilbrigðiskerfið sem troða á hér á dagskrá á morgun. Hefði ekki verið nær að ríkisstjórnin hefði komið með frumvarp, álit eða tillögu um bráðaaðgerðir í efnahagsmálum? Nei, það skal lemja á sjúklingum. [Hlátur í þingsal.] Það skal lemja á sjúku fólki og troða inn á þing með afbrigðum væntanlega frumvarpi um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Já, þingmenn mega hlæja því að vonandi eru þeir flestir frískir en ég er ekki viss um að það fólk sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu sé ánægt með þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur. (Gripið fram í.) Það verður dapurlegt að horfa á (Gripið fram í.) þegar Samfylkingin fer að greiða atkvæði um afbrigði ríkisstjórnarinnar til að koma markaðsvæðingarfrumvarpi heilbrigðisþjónustunnar á dagskrá. Ég bíð eftir því þegar það verður innlegg Samfylkingarinnar inn í efnahagsumræðuna að koma markaðsvæðingarfrumvarpi heilbrigðisþjónustunnar á dagskrá.

Ég velti líka fyrir mér, frú forseti, hvernig það er með forseta sem beitti sér fyrir breytingum á þingsköpum fyrir jól sem áttu að bæta vinnubrögð þingsins, sem áttu að koma í veg fyrir að ný frumvörp kæmu á dagskrá á síðustu dögum þings. Það var settur frestur fyrir 1. apríl og hann lagði þunga áherslu (Forseti hringir.) á góð vinnubrögð í nefndum. Ætlar nú Samfylkingin að fara að greiða atkvæði með afbrigðum? (Forseti hringir.) Á að koma einkavæðingarfrumvarpi heilbrigðiskerfisins á dagskrá á morgun? (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin var stofnuð um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, (Forseti hringir.) frú forseti, og hún ætlar greinilega að standa (Forseti hringir.) undir því nafni.