135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

rannsóknaboranir í Gjástykki.

576. mál
[14:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um rannsóknaboranir í Gjástykki sem til stendur að fara í í sumar. Í byrjun apríl var haldinn kynningarfundur norður á Húsavík um stöðu mála hvað varðar undirbúning að fyrirhugaðri byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Þar kynntu sveitarstjórnarmenn og Landsvirkjun stöðuna.

Þar kom m.a. í ljós að í sumar er fyrirhugað að fara í rannsóknaboranir inni á Gjástykki og leyfi til slíkra borana liggja fyrir. Í fyrstu var samþykkt heimild til rannsókna á yfirborði svæðisins en síðan, degi fyrir kosningar, var samþykkt að fara í boranir inni á svæðinu ef þyrfti.

Nú hafa öll fyrirheit verið um það að hlífa þessu svæði í lengstu lög. Þó að rannsóknir haldi áfram og undirbúningur að fyrirhuguðu álveri sé í gangi að þá verði leitað allra leiða að finna orku fyrir þetta fyrirhugaða álver á öðrum stöðum en í Gjástykki.

Þetta háhitasvæði er nær ósnortið í dag og er mikil perla fyrir okkur Íslendinga, fyrir ferðamenn og fyrir ferðaþjónustuna. Það býður upp á mjög mikla möguleika á svæðinu til þess að byggja upp aðrar atvinnugreinar og þá sérstaklega ferðaþjónustuna, aðra en þá sem er bundnir eru við fyrirhugað álver.

Mér er mikið í mun að Gjástykki, þessu háhitasvæði, sé hlíft í lengstu lög þrátt fyrir að mjög umdeilt leyfi sé til staðar, þ.e. á borunum til að leita að hita.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir frestun á fyrirhugaðri rannsóknaborun í Gjástykki með tilliti til verndargildis svæðisins og ólíkra hagsmuna einstakra atvinnugreina þar nyrðra uns niðurstöður liggi fyrir úr yfirstandandi rannsóknum á mögulegri orkunýtingu frá Þeistareykjum, Bjarnarflagi og Kröflu.

Er staðan (Forseti hringir.) orðin sú á þessum stöðum þar sem þegar er farið að bora að allt útlit er fyrir að þarna fáist ekki næg orka úr svæðinu? (Forseti hringir.)