135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er með mig farið eins og hv. þm. Jón Bjarnason að við höfum báðir talað í þessu máli einu sinni og við höfum samkvæmt gildandi þingsköpum aðeins heimild til þess að tala tvisvar við þessa umræðu. Við höfum bent á það, eins og reyndar fleiri hér, að það er fyrirvari á nefndarálitinu frá meiri hlutanum af hálfu hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar. Við höfum líka sagt að það liggi ekki fyrir í gögnum málsins hvaða áhrif þetta frumvarp hefur hugsanlega á stöðu ríkissjóðs, meðal annars á fjárlögin á yfirstandandi ári og því næsta. Það er óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það inn í þessa umræðu. Það er ekki hægt að láta menn eyða sínum tveimur ræðum án þess að þetta komi fram af hálfu formanns fjárlaganefndar.

Hér hefur verið reist krafa um það til hæstv. forseta að umræðu verði frestað þangað til hv. þm. Gunnar Svavarsson getur komið og tekið þátt í þessari umræðu með okkur. Ég ítreka við hæstv. forseta að við því verði orðið.