135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[18:02]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um aukna samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Atlantshaf.

Nefndin hefur fjallað um málið og umsagnir bárust um það frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Siglingastofnun, Landhelgisgæslu Íslands og ríkislögreglustjóranum, auk þess sem álit barst frá allsherjarnefnd Alþingis.

Hér er um að ræða tillögu sem á rætur að rekja til Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og er lagt til að Alþingi álykti með sama hætti og Vestnorræna ráðið hefur gert um umfjöllunarefni tillögunnar. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að auka samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Norður-Atlantshaf. Þá er lagt til að komið verði á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við alvarlegum slysum á Norður-Atlantshafi og leggur utanríkismálanefnd til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristinn H. Gunnarsson og Björk Guðjónsdóttir.