135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:37]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að samþykkt voru umdeild lög á Alþingi rétt fyrir jólin 2003 sem byggðu á frumvarpi sem flutt var af forsætisnefnd þingsins, af þingmönnum allra flokka á Alþingi. Allir flokkar þingsins komu að upphafi þessa umdeilda máls, þar eru Vinstri grænir ekki undanskildir. Síðan leiddi umræðan til þeirrar niðurstöðu að ekki treystu allir sér til að samþykkja lögin þegar þau komu til afgreiðslu og þar á meðal þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að undanskildum þeim þingmanni sem flutti frumvarpið.

Í aðdraganda síðustu kosninga sagði ég að ég mundi beita mér fyrir því að þessi lög yrðu endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyriskjörum þingmanna, ráðherra og almennings. Inn í stjórnarsáttmálann kom ákvæði þess efnis að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Að því er unnið í ríkisstjórninni að finna leiðir til að þetta geti orðið að veruleika.

Þegar frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, og fleiri kom til umræðu í þinginu sagði ég að ég teldi mikilvægt að hreyfa við þessu máli en það væri ekki þar með sagt að þetta væri eina færa leiðin í málinu. Það er ástæða til að leiðrétta það að frumvarp Valgerðar afnemur ekki lög, það breytir lögum, það breytir lífeyrisréttinum til samræmis við það sem almennt gildir hjá ríkisstarfsmönnum en felur ekki í sér afnám eftirlaunalaga. Einhver lög verða auðvitað að gilda í þessu efni en frumvarpið felur í sér mjög viðamikla breytingu. Ég tel mikilvægt að það náist samstaða um þetta mál, ekki bara í ríkisstjórninni heldur (Forseti hringir.) hefði ég auðvitað kosið að það næðist líka samstaða meðal þingmanna allra flokka.