135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:40]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eftirlaunalögin, eins og þau voru samþykkt, eru auðvitað meingölluð lög og ég vona að við séum flest hver sammála um það og það er full ástæða til að skoða þau og reyna að ná um það samkomulagi hvernig við getum hagað þessum hlutum. Ég er ekkert á móti því að skoða ávinnslu réttinda eins og þau eru í lögunum eða aldursmörkin sem eru í lögunum eða hið tvöfalda launakerfi sem er í lögunum. Ég er heldur ekki andsnúin því að skoðað verði með hvaða hætti hægt sé að láta þessi lög ná til þeirra sem nú þegar taka tvöföld laun samkvæmt þessu kerfi og ég lýsti því yfir þegar frumvarp Valgerðar kom til umræðu að ég vildi að það yrði skoðað. Á því er ekki tekið í frumvarpi Valgerðar og ég lýsti því sem kannski helsta gallanum á því frumvarpi þegar það var til umræðu. En ég ítreka að það er sjálfsagt og við eigum að endurskoða þessi lög og við eigum að vinna að því að færa lífeyrisréttindi þingmanna og ráðamanna nær því sem almennt gerist. (ÖJ: Eitt sagt fyrir kosningar, annað eftir kosningar.) Nákvæmlega það sem ég sagði fyrir kosningar ef þú hlustar á Stöð 2.