135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samráð um lífeyrismál.

[11:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt að líta svo á að þingmönnum annarra flokka sé stillt upp við vegg þó að nefnd séu þrjú efnisatriði. Þá hlýt ég að skilja það svo að einhver af þessum þremur efnisatriðum séu þess eðlis að þingmenn allra flokka geti ekki fallist á þau. (Gripið fram í.) Hvað er það? Er það að menn geti ekki verið á tvöföldum launum? Er það þess konar mál sem menn geta ekki fallist á að leiðrétta? Hvað er það? Að færa eftirlaunaaldurinn upp fyrir þau 55 ár sem hann getur verið í núna? Er það eitthvað sem menn vilja ekki fallast á, að færa þann eftirlaunarétt upp?

Er það spurningin um að það nái til þeirra sem taka tvöföld laun? Vilja menn ekki laga það? Eru einhverjir hérna algerlega á móti því og telja sér stillt upp við vegg í því máli? Það verður þá bara að koma fram, virðulegur forseti, að framsóknarmenn telji að þeim sé stillt upp við vegg með því að lagfæra a.m.k. þessi þrjú efnisatriði og e.t.v. fleiri ef mönnum sýnist svo. (Gripið fram í.)