135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka og vekja athygli hv. þingmanns og formanns nefndarinnar á þeirri umræðu og athugasemdum sem koma til þingsins, m.a. til fjárlaganefndar vegna fjárstýringar á opinberum hlutafélögum sem að stórum hluta taka fjármagn og rekstrarfé af opinberu fé. Þar er mikið vandamál á ferð og fjárstýring af hálfu fjármálaráðuneytisins gagnvart þessum aðilum er í ólestri. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvort hann hefði leitað umsagnar ríkisendurskoðanda. Það hefði a.m.k. verið hægt að lesa skýrslur og ábendingar ríkisendurskoðanda sem liggja fyrir varðandi þetta form. Mér finnst að það hefði verið eðlilegt að nefndin hefði einmitt kannað það fyrst verið er að binda í lög að reksturinn skuli vera í þessu formi.

Ég get vitnað til umræðunnar um Flugstoðir hf. sem fær líka meginfjármagn sitt beint af fjárlögum og hefur lent í því sama að hafa ekki rétt til þess að innheimta t.d. virðisaukaskatt, útskatt af aðföngum sínum, vegna þess að það var fyrirtæki á ríkisframfæri. Þess vegna er jafnfáránlegt að setja það í hlutafélagaform. Ég spurði því hv. þingmann hvort við værum að lenda í sömu vandræðum með þetta fyrirtæki og við höfum gert með ýmis önnur fyrirtæki sem telja að þau séu í (Forseti hringir.) rekstrarumhverfi sem ekki reynist síðan fyrir hendi.