135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Frumvarp til laga um grunnskóla er mjög ítarlegt og hefur einnig fengið mikla yfirferð og á margan hátt vandaða í menntamálanefnd. Mér skilst af umræðum hér að talin hafi verið sérstök ástæða til þess að taka fram að bæði formaður og nefndin hafi unnið þetta frumvarp vel. Það eru svo sem nýmæli að heyra það hérna í þingsölum. Það er kannski ástæðan fyrir því að þessu er haldið hér á lofti, að frumvarpið hafi verið vel unnið í nefnd. Það er gaman að því að komið er inn til umræðu mál sem menn geta haft þau orð um, þau eru ekki svo mörg.

Þó eru hérna örfá atriði sem ég vildi víkja að til viðbótar við það sem sérstaklega hefur komið fram, m.a. í framsögu formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem hélt ágæta framsögu en að mínu viti einum of stutta. Það var ítarlegt nefndarálit en hv. þingmaður áttaði sig á því þegar hann var kominn út í sirka mitt álitið að tíminn samkvæmt nýju þingsköpunum var búinn. Þá varð það honum helst til bjargar að segja að hann vonaðist til þess að aðrir nefndarmenn tækju við þar sem hann varð að hætta. Þetta sýnir nú, herra forseti, hvernig þessi nýju þingsköp virðast þegar vera farin að hefta nauðsynlegan málflutning og tjáningu hér á Alþingi.

Nú er að vísu heimild hjá forseta til þess að lengja ræðutímann að eigin frumkvæði þegar um stór mál er að ræða. Ég tel að einmitt í þessu tilviki þegar verið að fjalla um einn stærsta málaflokk íslensks samfélags sem er málefni grunnskólans og frumvarp til nýrra heildarlaga, hefði verið mikil virðing að því að forseti hefði að eigin frumkvæði lengt þar að minnsta kosti ræðutíma aðalframsögumanna og fulltrúa þingflokka. Það hefði verið við hæfi í stað þess að heyra formann nefndarinnar verða að hætta í miðju kafi með andarteppu yfir því að tíminn væri búinn og hann gæti ekki gert málinu tilhlýðileg skil. Ég vek athygli á því, herra forseti.

En víkjum aðeins að efnisgreinum málsins. Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hv. menntamálanefnd, kom hér inn á nokkur atriði í ræðu sinni, þ.e. bæði í 1. og 2. gr. þar sem farið er inn í gildi og markmið laganna. Þá vakti hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir athygli á því að áherslan á mannréttindi mætti svo sannarlega vera meiri í upphafi þar sem verið er að tala um markmið. Hún leggur til að orðið „mannréttindi“ komi þarna í fyrstu greinunum. Hvað er mikilvægara nú á þessum tímum en einmitt árétting á mannréttindum? Ég tek heils hugar undir þessar áherslur og þá breytingartillögu sem hv. þingmaður hér leggur til.

Þá vil ég líka víkja í beinu framhaldi af því sem mér finnst vera einn af megingöllum þessa lagafrumvarps en það er nálgun málsins. Hún kemur öll ofan frá í formi boðvalds. Hún kemur í formi þess að ríkið og sveitarfélögin koma með einhver boð og bönn en réttur nemandans er hins vegar hvergi nefndur í þessu sambandi. Það er komið að því í kafla hér nokkru ... (Gripið fram í.) Það er líka álitið gott, svo langt sem það nær. En ég bendi á, hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar, að það er ýmislegt sem betur mætti fara.

Ef hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni finnst það lítið mál að tala um mannréttindi og rétt þá er ég ekki sömu skoðunar. Ég hefði talið, alveg eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði áherslu á í ræðu sinni, að fyrst hefði átt að koma réttur barnsins til náms og þroska. Það hefði jafnvel átt að vera þarna í forgrunni.

Við höfum heyrt það núna síðustu daga að verið er að tala um nákvæmlega það sama varðandi barnaverndarlögin. Ég hlustaði á umfjöllun í sjónvarpi, í gær eða í fyrrakvöld, þar sem verið var að benda á þann ágalla í barnaverndarlögunum að mati þeirra sem þar fjölluðu um að réttur barnsins kæmi á eftir rétti foreldra. Sama finnst mér að ætti að vera hér, hér ætti réttur barns til náms, réttur fólks til náms og þess sem boðið er upp á í menningarþjóðfélagi okkar, að vera í forgrunni en ekki hvert rekstrarhlutverk menntakerfisins er, sem þarna er meira tíundað.

Ég vil leggja áherslu á, herra forseti, að þessi tvö atriði, annars vegar mannréttindanálgunin og hins vegar réttur einstaklingsins til náms, hefðu átt að vera í forgangi og síðan hefði málið átt að leggjast rétt út frá þessum grunnþáttum.

Þá tek ég einnig undir þær athugasemdir og ábendingar varðandi 2. gr., þ.e. um markmið, að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi við ábyrgð og umhyggju o.s.frv. Þar hefur línunni verið breytt lítillega. Í þessum kafla ætti að koma áhersla á náttúruna og umhverfismálin sem eru jú það sem er mjög í brennidepli nú um þessar mundir. Þau eru það sem okkur ber að vera afar meðvituð um og eiga að vera hluti af þeirri umgjörð sem sett er utan um málaflokk eins og grunnskóla.

Þessi atriði vildi ég nefna hér í upphafi. Þessi valdstjórn ofan frá kemur líka mjög greinilega fram í stjórnskipuninni þar sem alltaf er talað um yfirstjórn en réttur nemandans til náms er eitthvað sem ekki er grunnur heldur er það stjórnunin, fyrirtækjastjórnunin, stjórnunin á menntun sem starfsfyrirtækjarekstri. Gott og vel, það þarf líka að vera til staðar en það á ekki að vera aðalatriðið.

Skólinn er til fyrir börnin en ekki börnin fyrir rekstrarapparatið. Þessi nálgun finnst mér vera kannski einn af hugmyndafræðilega veikustu þáttum þessa frumvarps. Ég hefði viljað að menn gætu stigið út úr þessu stöðuga rekstrarfari að reksturinn og sá hluti sé eitthvað sem sé megindrifkrafturinn og hitt komi síðan þar á eftir.

Það er ekki fyrr en í 13. gr. sem farið er að minnast á nemendur. Sú grein byrjar á þessum orðum: Grunnskóli er vinnustaður nemenda og allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði o.s.frv. og með almenna vellíðan. Þarna er nemandinn orðinn liður númer 2 eða 3 í áherslum í rekstri skóla. Ég er ekki sammála þessari nálgun.

Málfarið á þessu lagafrumvarpi er heldur ekki til fyrirmyndar. Ég minnist þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um að frumvarpssmíðin og textinn á lögum um grunnskóla ættu jú að vera gott fordæmi einmitt í þeim efnum. Það væri forvitnilegt að heyra hvaða skilning hv. þingmaður og hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson leggur í orðið „móttökuáætlunaraðgerðir“. Það mjög merkilegt orð sem talað um er í 16. gr. Ég veit að við erum báðir mjög góðir í móttöku en það leynast mörg orðskrípi í frumvarpinu sem ættu allra síst að eiga heima í frumvarpi til laga um grunnskóla.

Ég vil síðan segja nokkur orð varðandi það sem kemur fram í VI. kafla þar sem fyrst er verið að tala um skólahúsnæði og aðstæður í grunnskólum. Í 22. gr. er síðan talað um skólaakstur. Þar er eingöngu sagt:

„Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standa straum af kostnaðinum. Ráðherra setur svo reglur um skólaakstur í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.“

Fjarlægðir nemenda víða um land til skóla eru stórmál. Vegir víða um sveitir eru afar slæmir. Í mörgum tilfellum eru þeir ekkert betri en þeir voru fyrir áratugum síðan. En stöðugt lengist sá vegur sem börnum er ekið í skólann. Ég hefði viljað sjá að í þessa lagagrein hefði verið sett einhver krafa um aðbúnað barna í skólaakstri, þ.e. að ekki megi aka meira en ákveðna vegalengd, að lengd bílferða séu takmarkaðar þannig að menn gerðu sér grein fyrir því að þetta sé eitthvað sem skiptir máli. Í þeirri hrinu sem nú gengur yfir og hefur gengið á undanförnum árum í sameiningu sveitarfélaga hafa grunnskólar verið sameinaðir. Hefur það leitt til þess að akstur og akstursleiðir nemenda lengjast stöðugt. Það virðast fáir skipta sér af því.

Þetta er stórmál og eitt mesta átakamál til sveita í hinum dreifðu byggðum landsins er einmitt þessi ofboðslega þunga krafa að leggja niður, loka minni skólum dreifbýlisins, skólum sem eru einmitt hjarta og þungamiðja viðkomandi samfélaga. Það má jú reikna, setja þetta allt upp í excel. Sumir tala um að excel-kynslóðin sem nú ræður ríkjum á Íslandi sé að ganga af mörgum gildum dauðum eða að veikja mjög gildismat þjóðarinnar, góða gildismatið af því það er allt sett upp í excel. Svo ef maður breytir einhverju þá breytist allt. Gildin eru sett upp í excel, líka gæði skólanna.

Ég hefði viljað sjá að í þessu frumvarpi væri tekið á því að settar væru kröfur, þ.e. um réttindi nemandans til náms við boðlegar aðstæður. Það væri líka sett fram krafa eða skilgreining á því að komið yrði til móts við minni skóla í ríkari mæli en nú er varðandi jöfnun kostnaðar og möguleika á að halda úti litlum skólum. Þetta finnst mér mjög mikið vanta. Mér finnst vanta í frumvarpið meira raunveruleikaskyn á því hvað er að gerast og hver veruleikinn er.

Eins er það með skólamáltíðirnar. Þar tek ég alveg heils hugar undir þær breytingartillögur sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir leggur til. Það er að grunnskólar skuli sjá nemendum fyrir málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið og málsverður skuli samkvæmt þessari grein vera nemendum að kostnaðarlausu.

Ég held meira að segja að máltíðin sé hluti af uppbyggingu matarmenningar sem er ekki hvað síst ástæða til þess að byggja upp, styrkja og standa vörð um. (Gripið fram í.) Margir skólar hafa því miður farið út í það að reyna að spara á máltíðum, bjóða þær út. Ég minnist þess t.d. þegar jafn ágætt sveitarfélag og Dalvíkurbyggð bauð út skólamáltíðirnar. Þá var verið að loka einum eða tveimur skólum í héraðinu, að mig minnir, eftir sameiningu. Skólamötuneytin sem þar voru fyrir voru lögð af og máltíðirnar boðnar út. Sá sem bauð í þær kom frá eldhúsi á Suðurlandi. Það gæti að sjálfsögðu hafa verið hið besta eldhús. En svo voru máltíðirnar keyrðar norður á Dalvík og þær hitaðar upp. En Dalvíkurbyggð sem státaði af því að geta haldið stærstu matarhátíðir í landinu (Gripið fram í: Og besta söngvarann.) og átt besta söngvarann, gat ekki einu sinni eldað matinn fyrir börnin sín heima. Ég gæti nefnt fleiri slík dæmi.

Máltíðir og matur í skólum hafa gríðarlegt uppeldishlutverk, matarmenningarhlutverk, sem ekki veitir af að styrkja nú á tímum. Þess vegna hefði ég viljað sjá að það stæði að máltíðir skyldu vera eldaðar á viðkomandi stað og vera hluti af skólanámskrá, mennta- og menningarnámskrá skólanna, en ekki eins og þetta sé einhver óæðri eða ónauðsynleg þjónusta, eins og mér sýnist af orðalaginu hér í þessu frumvarpi. Matur og matarmenning eru gríðarlega stór þáttur í uppeldi og velferð barna. Þess vegna finnst mér, frú forseti, að það hefði átt að gera því miklu betri skil.

Ég verð líka að taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur í 28. gr. Þar er verið að lengja skólaárið um tíu daga án þess að skilgreina hvers vegna og hvernig. Í mörgum tilfellum er þetta kannski ekki rétt og allra síst er rétt að lengja skólaárið án þess að það sé tilkynnt hvernig með það skuli farið eða hvort þarna sé frjálsræði skólanna að baki.

Ég vil rétt í lokin minna á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem dreginn er fram sá mikli mismunur sem er á aðstöðu sveitarfélaga til þess að veita þá menntun sem hér er verið að tala um til þess að geta uppfyllt eðlilegan rétt og kröfu nemenda um nám. Þó að vísað sé á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fer hann eftir allt öðrum lögum þannig að það er í sjálfu sér engin trygging. Hér í lögum um grunnskóla ætti að vera skýrt kveðið á um að ríkið beri ábyrgð á því að fjármagn fari til sveitarfélaganna á fullnægjandi hátt þannig að þau geti hvert og eitt, óháð stærð, óháð legu, óháð miklum vegalengdum, veitt nemendum sínum nám á jafnréttisgrunni sem mikið (Forseti hringir.) vantar á, frú forseti. Í þessum lögum (Forseti hringir.) vantar einmitt þá meginþætti (Forseti hringir.) sem snúa að því að framkvæma þau ágætu markmið sem sett eru fram í frumvarpinu, frú forseti.