135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:44]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég skal viðurkenna að ekkert fer meira í taugarnar á mér en svona stríð. Ég verð að segja það hér, þetta er gríðarlegt virðingarleysi, einir tíu þingmenn eru nú á mælendaskrá um grunnskólamálið. Það þýðir tveir til þrír tímar og ef það er í stríði getur það orðið lengri umræða. Ég held að það hljóti að vera ósk stjórnarliða að ræða framhaldsskólamálið í skjóli nætur af því að það er umdeilt. Þeir vilja klára það í nótt. Þeir vilja ekki að sú umræða fari fram fyrir opnum tjöldum að degi til. Þess vegna er það sennilega vilji stjórnarflokkanna að klára það mál í skjóli nætur. Þeir vita að þeir eru að fara gegn framhaldsskólafólkinu í landinu, þeir eru að fara gegn því.

Það getur vel verið að fólk geti hlegið hér eins og fífl, (Forseti hringir.) það hefur fullan rétt til þess, en ég bið (Forseti hringir.) hæstv. forseta að virða þá stöðu að þingið þarf að vera lýðræðislegt. Það er ekkert vit, hæstv. forseti, að halda svona áfram inn í nóttina. (Gripið fram í.)