135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:22]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skárra væri það nú þegar búið er að móðga Samband íslenskra sveitarfélaga og húsbændurna yfir þessum fyrirtækjum. Þegar ráðherrann og ráðuneytið hafa móðgað þetta stórveldi sem sveitarfélögin eru, sem ráða yfir orkufyrirtækjunum — ekkert samband haft við þau á grunnstiginu þegar verið er að semja frumvarpið. Við fundum það náttúrlega þegar aðilar þessa stórfyrirtækis, sveitarfélaganna, komu á okkar fund að þá lak af þeim fýlan. Þeir voru reiðir yfir hvernig með þá hefði verið farið, að þeir fengju ekki að koma að gerð svona viðamikils frumvarps. Það var auðvitað skylda formanns nefndarinnar að draga ráðherra sinn að landi og það gerði formaðurinn í nokkrum tilvikum. Hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur tókst að milda málið nokkuð og koma með atriði sem skipta máli í sátt við sveitarfélögin inn í þetta.

Eftir sem áður stendur ýmislegt eftir sem Samband íslenskra sveitarfélaga er óánægt með og þeirra stóru athugasemdir um stjórnarskrána og skaðabótakröfuna — það drógu þeir aldrei til baka. Við í nefndinni fengum ekki það tækifæri sem við vildum til að skoða það mál nánar. Ég taldi það því skyldu ráðuneytismanna, sem hvað eftir annað komu á okkar fund, að þeir leituðu að niðurstöðum. Það hefði verið eðlilegt að Alþingi Íslendinga legði vinnu í svona stórar athugasemdir eins og þegar farið er að ræða um það af hálfu sveitarfélaganna að mál sé að verða að lögum sem muni snerta stjórnarskrá og verða mikið skaðabótamat.