135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:08]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer betur yfir þetta mál í ræðu á eftir vegna þess að hér verður að leiðrétta ákveðna hluti — ég veit ekki hvort það er útúrsnúningur eða misskilningur hjá hv. þingmanni.

Ég ætla aðeins að koma inn á Landsnet vegna þess að því hefur verið haldið fram að þetta frumvarp boði sölu á 49% hlut í Landsneti. Það er einfaldlega rangt. Það er staðreynd að ekki er verið að opna fyrir eignarhald að Landsneti í þessu frumvarpi. Samkvæmt gildandi lögum í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði XII, sem er sértækt bráðabirgðaákvæði um eignarhaldið í Landsneti — það er ekki verið að fella það brott. Hins vegar er verið að setja belti og axlabönd inn í almennt ákvæði 8. gr. — sem er galopið í dag — þannig að það verði tryggt til allrar framtíðar að þetta fyrirtæki, Landsnet, muni ekki fara í meirihlutaeigu einkaaðila. Það er það sem verið er að gera.

Eignarhaldinu á Landsneti verður ekki breytt nema sem sérstöku máli hér í þinginu. Bæði er það tryggt í raforkulögunum, í þessu sértæka bráðabirgðaákvæði XII þar, og sömuleiðis í sérstökum lögum um fyrirtækin sem eiga í Landsneti. Eigendur Landsnets eru þar með bundnir af bráðabirgðaákvæði XII þar til endurskoðun raforkulaga er lokið og þeir geta því ekki selt öðrum en núverandi hluthöfum hluti sína í fyrirtækinu. Þessu til viðbótar, eins og ég sagði hér áðan, verða hlutir í Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða ekki seldir nema samkvæmt lagaheimild. Í tilviki Landsvirkjunar og Rariks þyrfti auk þess að breyta lögum um fyrirtækin sérstaklega. Þetta, virðulegi forseti, er mikilvægt að komi hér fram og sé haldið til haga. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að opna eða fella á brott bráðabirgðaákvæði XII úr raforkulögunum með þessari breytingu.