135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:43]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í raforkulögunum er fjallað um flutningsfyrirtæki og ekki einungis í 8. gr. sem hv. þingmaður hefur gert að umtalsefni heldur einnig í þeirri 9., 10. og 11. Síðast en ekki síst er fjallað um eignarhaldið á flutningsfyrirtækinu í bráðabirgðaákvæði XII sem ég las áðan og þarf ekki að endurtaka. Þar eru takmörkin sett á eignarhaldið. Það er þar sem eignarhaldið er lokað inni í þeim fyrirtækjum sem upphaflega stofnuðu Landsnet eða keyptu það reyndar af ríkinu í framhaldi af 19 manna nefndinni.

Ég verð að segja að ef þingmaðurinn telur að verið sé að setja axlabönd við belti með því að falla frá kröfunni um að þetta sé alfarið í eigu þessara þriggja stóru opinberu fyrirtækja yfir í að setja það í 51% eigu opinberra aðila, þá er sylgjan á beltinu ónýt og klemman á axlaböndunum brotin.