135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:59]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst á formanni Framsóknarflokksins þegar hann talaði hér fyrr í kvöld að hann hefði heldur kosið að þessi hlutur sem mætti selja eignaraðilunum færi ekki í meira en 1/3 eins og upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sama sinnis.

Varðandi málið að öðru leyti, hitaveiturnar og þar með talið fráveituna, holræsin, kemur mér afstaða hans aðeins á óvart. Það hefur til að mynda verið samdóma viðhorf — ég held ég megi segja allra flokka, t.d. á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, þar með talið Framsóknarflokksins — að þessi starfsemi eigi að vera að fullu á hendi sveitarfélagsins, þ.e. opinbers aðila. Það kemur mér aðeins spánskt fyrir sjónir að heyra þau viðhorf hjá þingmanni Framsóknarflokksins að honum finnist í lagi að svona stór og afdrifaríkur hlutur fyrirtækjanna á þessu sviði fari hugsanlega í eigu einkaaðila ef ákvörðun yrði tekin um að selja þennan hlut sem frumvarpið heimilar ef það verður að lögum. Það kemur mér á óvart og ég hefði gjarnan viljað heyra betur frá þingmanninum hvernig hann rökstyður það.