135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:36]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Martraðir mínar snúast ekki um að endurlifa fortíðina, þær snúast kannski yfirleitt meira um nútíðina og það sem er að gerast dagsdaglega. Hvað varðar hins vegar það sem vikið er að get ég að vissu leyti tekið undir þetta álit og skoðun hollvinanna. Ég hef verið talsmaður þess, m.a. í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, að orkufyrirtækið, Hitaveita Suðurnesja, eigi að snúa sér að því að lækka gjaldskrá. Um leið get ég upplýst það að ég studdi ekki orkusölusamninginn við Norðurál sem var borinn upp fyrir rúmu ári í stjórn Hitaveitu Suðurnesja því ég taldi að hann væri ekki nógu góður fyrir það félag.

Ég hef haldið þeirri skoðun á lofti og veit að ég á ýmsa skoðanabræður og -systur í þessum málum. Ég vil hins vegar minna á að við sem höfum tekið þátt í stjórn orkufyrirtækja, og það eru nokkrir þingmenn hér í salnum sem hafa tekið þátt í stjórn orkufyrirtækjanna, höfum horft upp á það að orkufyrirtækin hafa verið að reyna að miða við 7% arðsemi af eigin fé í gegnum rekstur sinn en oft og tíðum hefur niðurstaðan verið mun hærri. Það er nú einu sinni þannig, óháð í hvaða flokkum við erum, að við erum ekki voðalega mikið að koma fram með tillögur í stjórnum orkufyrirtækjanna um lækkun á orkuverði. Þetta á líka við t.d. um fráveitumálin og vatnsveitumálin hjá sveitarfélögunum. Þess vegna vil ég einfaldlega segja að það er í sjálfu sér alveg sama hvaða stjórnmálaflokkur er að starfa í þessu umhverfi, við höfum horft á það að vilja vera mjög varfærin í þessum málum. En ég held að það sé hugsanlega kominn tími til þess, virðulegur forseti, að orkufyrirtækin (Forseti hringir.) og sveitarfélögin fari að skoða hvort þau geti lækkað kostnað íbúanna í þessum málum.