135. löggjafarþing — 108. fundur,  27. maí 2008.

Norðurlandasamningur um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.

577. mál
[00:09]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.

Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið til sín gesti.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda samkomulag sem gert var 26. janúar 2006 um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931. Einnig er lagt til að samkomulagið öðlist lagagildi hér á landi á sama hátt og á við um samninginn sjálfan og fyrri breytingar á honum. Samkomulagið hefur að geyma reglur um val á lögum í málum er varða fjármál hjóna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Ellert B. Schram og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir nefndarálitið rita auk mín Ágúst Ólafur Ágústsson, Atli Gíslason, Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Karl V. Matthíasson og Jón Magnússon.