135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Engin vísindi eru á bak við það að halda því fram að raunveruleg lánskjör ríkisins hefðu orðið í samræmi við skuldatryggingarálagið eins og það var, það vissu allir. Það er algjörlega ósannað mál að lánskjör ríkisins hafi endilega breyst mikið þrátt fyrir sveiflur á þessu svokallaða skuldatryggingarálagi, eða hvað? Var það ekki þannig að Hafnarfjarðarkaupstaður tók stórt lán þegar skuldatryggingarálag bankanna og ríkissjóðs var eiginlega alveg í hámarki og fékk það á prýðilegum kjörum? Veruleikinn er nú kannski svolítið annar stundum þegar á bak við er skyggnst.

Við gengum frá tillögum okkar í lok febrúarmánaðar og kynntum þær í byrjun mars, mörgum vikum áður en stóra hrunið í kringum páskana kom. Þá var það mat margra ágætra hagfræðinga sem við ráðfærðum okkur við að ráðstafanir af því tagi sem við lögðum þá til, að vísu talsvert lægri fjárhæðir en vel að merkja allar í formi þess að styrkja eigið fé Seðlabankans um 80 milljarða í gjaldeyri og 40 milljarða í innlendum skuldabréfum, samtals 120 milljarða, hefði væntanlega dugað til þess að róa ástandið og þá hefði dýfan kannski aldrei orðið svona djúp.

Síðan verð ég að segja að mér finnst þetta vera aumkunarverður málflutningur að reyna alltaf að kenna krónunni um og tala um þetta óskaplega vandamál með þennan litla og óstöðuga gjaldeyri. Er breska pundið lítill gjaldmiðill? Var það það sem var að þegar breska pundið hrundi og Bretar þurftu að leita á náðir Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir ekki mörgum árum síðan? Það var a.m.k. ekki vegna þess að þetta væri minnsti gjaldmiðill í heimi. Nei, ætli það sé nú mikið samhengi á milli hlutanna þegar betur er að gáð.

Auðvitað er það átakanlega nakið þegar hv. þingmaður og flokkssystkini hans eru alltaf að reyna að tala krónuna niður til þess að geta sagt í kjölfarið: Við verðum að ganga í ESB og taka upp evru.