135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

neytendalán.

537. mál
[12:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það mál sem hér er verið að fjalla um, lagasetning um neytendalán miðar að því að styrkja vernd neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum fyrst og fremst, lánveitenda og þeirra sem almennir neytendur hafa skipti við á fjármálamarkaðnum.

Þetta er að því leyti til athyglisvert mál að með því er verið að bregðast í nokkru við fákeppni og einokun á fjármálamarkaði. Vegna þess að reynslan hefur verið sú og það hefur verið litið svo á að fjármálafyrirtæki hafa í stað þess að láta markaðinn og samkeppnina stýra neytendaverndinni frekar slegið sig saman í hóp meðvitað eða ómeðvitað og krafið neytandann, lántakandann um hin og þessi gjöld. Menn þekkja umræðuna. Seðilgjöld voru tekin upp. Eins er það gagnvart neytendum, það eru uppgreiðslugjöld, yfirdráttur af lánum og tilkynningakostnaður.

Allar þessar leiðir virtust fjármálafyrirtækin vera búin að ná einhvers konar þegjandi samkomulagi um að beita gagnvart neytendum og sækja sér þannig auknar tekjur. Dæmigert fyrir fákeppni og einokun á markaði annars vegar og svo hins vegar fyrir græðgina á fjármálamarkaðnum. Öllum ráðum skyldi vera beitt til þess að hala inn fjármagn á almennum neytendum.

Þetta frumvarp er því áfellisdómur, það er staðfesting á því að markaðurinn, hinn frjálsi markaður virkar neytendum ekki í hag í þessu tilviki og reyndar fjarri því.

Þess vegna er verið að setja hér reglur og binda í lög að ekki megi leggja á óhóflegan kostnað vegna óheimils yfirdráttar. Ekki megi beita eða koma aftan að neytendum með auknum gjöldum o.s.frv. En stærsta málið er það að óheimilt verður að krefjast uppgreiðslugjalda af eftirstöðvum lána í íslenskum krónum.

Eitt af því sem bankarnir gerðu þegar þeir fóru inn á húsnæðismarkaðinn, þegar þeir gerðu innrás inn á markaðinn með miklum lánveitingum, gylliboðum í lánveitingum var að þá stóð ýmislegt í smáa letrinu, m.a. um uppgreiðslugjöld á lánum o.s.frv. Og þegar eftir á var lesið þá hafði neytandinn kannski ekki alltaf gert sér grein fyrir öllum þeim skilmálum sem stóðu í smáa letrinu. Hér er þá í litlu verið að bregðast þar við.

Þess vegna styð ég þetta mál í sjálfu sér vegna þess að það færir vissa neytendavernd á þessu sviði. Það þýðir að vísu aukinn eftirlitskostnað, því um leið og maður setur lög og reglur þá þarf aðila til að fylgja þeim eftir. Ég harma það í sjálfu sér að samkeppnin skuli ekki vera það virk að hún tryggi vernd og rétt neytenda eins og hérna er.

Ég hef líka kallað eftir að fjármálafyrirtækin settu sér siðareglur og fjármálafyrirtækin fengju ekki starfsleyfi fyrr en þau hefðu sett sér siðareglur sem hlotið hefðu viðurkenningu og staðfestingu hjá einhverjum öðrum aðila, þess vegna Neytendastofu eða öðrum fulltrúa almannahagsmuna. En mér er ekki kunnugt um, og væri fróðlegt að heyra það hjá formanni nefndarinnar, að nein fjármálafyrirtæki hafi sett sér siðareglur, hvorki í umgengni sinni við neytendur né í neinu tilviki.

Eitt atriði hefði gjarna mátt koma inn í þessa umræðu en um það var ekki fjallað í nefndinni, það er sérstök framkoma fjármálafyrirtækjanna gagnvart börnum og unglingum þar sem oft er gengið mjög freklega á persónurétt ungra viðskiptavina. Við þekkjum umræðuna um það að bankar bjóða gylliboð í utanlandsferðir fyrir nemendahópa gegn því að það sé safnað svo og svo mörgum viðskiptavinum inn til bankanna. Mér finnst þetta siðlaust og einmitt það hvað varðar neytendaverndina í víðari skilningi gagnvart fjármálafyrirtækjum væri ástæða til þess að taka það hér frekar upp. En, herra forseti, ég vildi bara vekja athygli á þessu.

Margt athyglisvert kom fram í umsögnum sem bárust, t.d. frá Neytendasamtökunum en í umsögn þeirra segir, með leyfi forseta:

„Að ýmsu leyti styðja samtökin frumvarpið enda er þar að finna ákveðnar réttarbætur til handa neytendum. Hins vegar er það álit samtakanna að ekki sé nægilega langt gengið hvað varðar réttarvernd neytendanna.“

Þetta er væntanlega sagt af einhverri biturri reynslu í samskiptum neytenda og fjármálafyrirtækja sem Neytendasamtökin hafa greinilega kynnst. Sama segir Alþýðusamband Íslands og telur líka bæði brýnt að setja þessar takmarkanir á fjármálafyrirtækin og reyna að hefta þá græðgi sem þessum aðilum hefur greinilega fundist almennir lántakendur verða fyrir. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir t.d., með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands styður mjög eindregið þær breytingar sem lagðar eru til. Þó eru gerðar tvær athugasemdir.

Í fyrsta lagi telur ASÍ að lögin ættu að geyma ákvæði sem banni töku uppgreiðslugjalds í öllum þeim tilvikum þegar lántakandi hyggst selja fasteign með áhvílandi veðskuldum en lánveitandi heimilar annars vegar ekki skuldaraskipti og hins vegar ef nýr kaupandi veðsettrar fasteignar hyggst endurfjármagna íbúðarkaup sín með uppgreiðslu áhvílandi lána.“

Þetta er mjög alvarleg ábending og athugasemd. Ekki síst í ljósi þess að fjölmargir íbúðarkaupendur hafa einmitt tekið lán hjá viðskiptabönkunum til að fjármagna húsnæðiskaup á síðustu árum. Það er heimild til endurskoðunar á kjörum lánanna eftir tiltekinn tíma, ég man ekki hvort það eru tvö, þrjú, fjögur eða fimm ár. Og þá er samningsstaða neytandans gagnvart fjármálafyrirtækinu ósköp veik því ekki getur hann greitt upp lánið. Sama gildir þegar verið er að skipta um húsnæði þá er annaðhvort heimild til að taka lánið með sér á þeim kjörum sem þau voru tekin á eða láta þau fá að hvíla á hinu selda húsnæði. Það mun því sannarlega reyna á bankana eins og hæstv. félagsmálaráðherra sagði hér í umræðum nú nýverið varðandi íbúðalánin, ein mestu viðskipti sem bankarnir hafa átt við almenna notendur og því mun reyna á bankana á næstunni hvernig þeir muni bregðast við þegar kemur til heimildar á endurskoðun á þessum lánskjörum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum í mjög öflugan og sterkan og félagslegan Íbúðalánasjóð. Íbúðalánasjóð fyrir alla, alla almenna íbúðarkaupendur þannig að í gegnum hann sé hægt að tryggja íbúðaeigendum lán til íbúðarkaupa á sem hagkvæmustu kjörum. Grunnþörf alls fólks er íbúðarhúsnæði og allar hugmyndir sem hafa komið, m.a. frá hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra um einkavæðingu á Íbúðalánasjóði og skipta honum upp í parta eru alveg stórhættulegar.

Þegar við lesum umsagnir aðila um þessi fjármálafyrirtæki og það vantraust sem greinilega ríkir á milli neytenda og fjármálafyrirtækja og að ástæða sé til þess að setja um það lög þá hljótum við að árétta hve mikilvægt það er að standa vörð um félagslegan Íbúðalánasjóð fyrir alla þar sem ríkið ber ábyrgð á fjármagninu, því hvað er betri trygging heldur en íbúðir fólks, íbúðir þegna þjóðarinnar? Það sem við ættum að gera nú frekast er að efla enn frekar Íbúðalánasjóð og almenn lán hans til íbúðakaupenda til þess að þurfa ekki að vera síðan að koma stöðugt með ný og ný lög til þess að setja höft og hefta hin almennu fjármálafyrirtæki í að ganga á rétt neytenda eins og hér hefur þurft að gera.

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp þó að ég harmi að það þurfi að setja svona takmarkanir á fjármálafyrirtækin að það sé ekki hægt að treysta þeim. Ég tel mikilvægt að þau setji sér siðareglur í umgengni sinni við neytendur og við stöndum vörð um Íbúðalánasjóð þannig að hann fari þá ekki líka sömu leið í gin viðskiptabankanna. Þar setjum við mörk.