135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[13:07]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að við þurfum að stuðla að því að hér verði eflt öryggi og sett viðeigandi löggjöf um þá þætti sem þetta mál tekur til.

Aðeins út af því sem hv. þingmaður vék að varðandi ríkislögreglustjóraembættið og því að hér sé ákveðinn veikleiki í löggjöf sem fjallar um þessi mál þá vil ég koma að því að það er ekki beinlínis þannig að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og þingflokkur hans hafi lagt sig mikið fram um að liðka fyrir slíku starfi hér á þinginu við að koma á slíkri löggjöf. Er þá helst að minnast þess að þegar rætt er t.d. um varnar- og öryggismál hér í þinginu þá hefur málflutningur hv. þingmanns og hv. þingmanna Vinstri grænna gjarnan snúist um að við setjum allt of mikið fé í þann málaflokk og í það starf en við ættum frekar að nýta það til að byggja upp innviði öryggiskerfis okkar og löggæslu, almannavarnir og þá þætti sem að þessu snúa. En þegar kemur síðan að umræðu hjá þessum sömu hv. þingmönnum um uppbyggingu lögreglu, um uppbyggingu þeirra nauðsynlegu stofnana sem þurfa að vera til staðar til að bregðast við alþjóðlegri glæpastarfsemi, alþjóðlegum glæpaflokkum sem eru klárlega að hasla sér völl í landinu, þá sjá þeir því allt til foráttu að setja aukið fjármagn í það. Þeir tala um hervæðingu og mála skrattann á vegginn í allri þeirri umræðu þannig að það er erfitt að nálgast einhverja skynsamlega niðurstöðu í þessum málum í samvinnu við fólk með slíkan málflutning.