135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:09]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um mjög mikilvægt mál, breytingar á fjórum lagabálkum á orku- og auðlindasviði. Við vinstri græn lýsum stuðningi við annað meginmarkmið þessa frumvarps sem er að tryggja að opinberar auðlindir í vatnsafli og jarðvarma verði áfram í eigu þjóðarinnar en við viljum útvíkka það hugtak þannig að það taki einnig til Hitaveitu Suðurnesja. Við viljum að fyrirtækin verði líka áfram í eigu þjóðarinnar og við viljum ekki slíta þau í sundur í þágu ímyndaðrar samkeppni. Við viljum slá skjaldborg um Andakíl og Mjólká og við munum reyna að tryggja að Landsnet verði áfram í eigu opinberra aðila. Við treystum á stuðning við góðar tillögur okkar og við munum eftir atvikum styðja aðrar tillögur sem lúta að því að bæta úr verstu ágöllunum á þessu frumvarpi.