135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[15:36]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sem hv. þm. Gunnar Svavarsson hefur mælt fyrir er ítarlegt og gott að mínu mati svo langt sem það nær. Er þar nokkur breyting á til batnaðar af hálfu meiri hlutans undanfarin ár sem flokkur viðkomandi var þó ekki aðili að þannig að ég vil bara segja að batnandi manni er best að lifa.

Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í. Hann kom inn á þau atriði að einkum verði að ganga frá ríkisreikningi og árétta hann og nú værum við með lokafjárlög til þess að staðfesta hann af Alþingi. Það væri í rauninni búið að ganga frá ríkisreikningi. Ég spurði: Er að hans mati löglegt að gera þetta svona, að stimpla aðgerðir framkvæmdarvaldsins með þeim hætti sem Alþingi er boðið upp á? Ég tel orka tvímælis hvort þetta sé löglegt ferli og gerningur.

Hitt atriðið sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í er þetta: Það vekur óneitanlega athygli að á bls. 60 í frumvarpi til lokafjárlaga um Sóltúnsheimilið skuli verið að leggja til að mér sýnist 141 millj. kr. til viðbótar á lokafjárlögum inn í rekstrardæmi heimilisins. Við fengum ekki mjög ítarlegar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu hvorki um þessa liði né aðra varðandi lokafjárlögin en þetta er eitt af þeim atriðum sem stinga mjög í stúf og ég mun síðan koma inn á fleiri á eftir.