135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:17]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns um að það er vilji allra nefndarmanna að taka höndum saman um að bæta vinnuna við fjárlagagerðina, framkvæmd fjárlaga og þau verkefni sem undir nefndina heyra í umboði Alþingis. Ég mun taka þátt í því heils hugar og vil gjarnan sjá þar menn ganga enn röskar og hraðar til verks þótt við getum verið ósammála um einhverjar pólitískar áherslur í þeim efnum varðandi einstaka liði. Ég sé ekki annað en að við séum nokkuð sammála um hvernig eigi að standa að framkvæmd þessa verks sem nefndin ber ábyrgð á og vildi svo sem sjá þar stigin stærri og fastari skref.

Ég legg áherslu á þann þátt sem hv. þingmaður vék aðeins að. Það er fjárstýringarþáttur af hálfu fjármálaráðuneytisins þegar við höfum stofnanir sem sumar borga mikið í vexti en aðrar eru í vandræðum með rekstur sinn innan ársins. Það er verið að pína þær til þess að skila inn rekstraráætlun — ég man ekki hvað það var — var það ekki sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, var ekki þriðja eða fjórða rekstraráætlunin sem loksins var tekin gild? Þá var komið fram í júní en fyrst var skilað inn áætlun á réttum tíma.

Svona fjárstýring t.d. gagnvart ríkishlutafélögum — ég kem að því í seinni ræðu minni. Ríkishlutafélög (Forseti hringir.) eru að því virðist gjörsamlega eftirlitslaus hvað varðar fjárstýringar af hálfu ríkisins.