135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:33]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar er ég alveg sammála hv. þingmanni, vitleysan er jafnvond hvaðan sem hún kemur en þetta kerfi er ekki vitlaust.

Hv. þingmaður nefndi mikilvægi þess að standa vörð um heildstæða þjónustu og opinbert þjónustukerfi. Það stendur ekki til að breyta því. Í frumvarpinu er kveðið á um heildstætt þjónustuframboð af hálfu hins opinbera. Heimilt er að semja við Landspítalann þó að það sé dýrara til að viðhalda heildstæðri opinberri þjónustu. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki lesið frumvarpið. Það er ekki verið að tala um að búta niður þjónustu hins opinbera. Þvert á móti er verið að tala um að styrkja heildstætt þjónustuframboð. Það er forsenda í frumvarpinu öfugt við það sem oft hefur verið áður og öfugt við það sem t.d. framsóknarmenn féllust á í samstarfi við sjálfstæðismenn upp úr 1995, að stefna ætti að því að á Landspítalanum væri meira horft til grunnþjónustu og einstakir þjónustuþættir væru settir út úr. Sú aðferðafræði sem nú er verið að fjalla um byggist ekki á því, hún byggist á heildstæðu þjónustuframboði af hálfu hins opinbera. Þetta er ný hugsun, hún hefur verið reynd og hún hefur tekist vel.

Virðulegi forseti. Vissulega felst kostnaður í eftirlits- og þjónustukerfi og auðvitað er hægt að leika á öll kerfi og það er hægt að hagnast á því að vinna eftir öllum kerfum. Það er líka hægt í kerfinu í dag. Hvað einkennir íslenskt heilbrigðiskerfi í dag? Jú, það er skortur á efnislegri viðmiðun fyrir þá sem þjónustunnar njóta. Það er skortur á að þeir geti kallað eftir tiltekinni þjónustu á tilteknum tíma. Það er með öðrum orðum réttleysi sjúklinga gagnvart veitendum þjónustunnar og það er ófært ástand. Það kerfi grefur undan samfélagslegri samstöðu um félagslegt heilbrigðiskerfi vegna þess að það skapar vilja hjá þeim sem eru betur stæðir til að fá að borga sig fram fyrir og fá annars konar þjónustu en aðrir. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þjónustan sé góð, hún sé heildstæð og hún sé eins fyrir alla.