135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:57]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Að ósk þeirrar sem hér stendur fór frumvarp það sem hér er á dagskrá aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og á fund nefndarinnar komu meðal annarra gestir frá iðnaðarráðuneyti en einnig — og það vil ég þakka sérstaklega fyrir — fulltrúar frá Landsneti hf. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Helsta ástæða fyrir því að ég óskaði eftir ítarlegri umfjöllun nefndarinnar á þessu stigi varðar þá grein frumvarpsins sem nú er orðin 3. gr., um breytt eignarhald á Landsneti.

Til nefndarinnar var sent álit, samhljóða samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, frá 23. maí sl. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Stjórnin“, þ.e. stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, „leggur til þá breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, að 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um breytingu á eignarhaldi á Landsneti hf., falli brott úr frumvarpinu.“

Síðan segir, herra forseti:

„Landsnetið er vegakerfi orkunnar. Stjórnin telur afar brýnt að fyrirtækið verði áfram alfarið í opinberri eigu.“

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er ellefu manna stjórn og það hefur komið fram að á umræddum fundi voru fimm forustumenn Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarmálum á landsvísu, þar á meðal formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á fundinum voru líka þrír helstu forustumenn Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum á landsvísu.

Þegar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem var Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræðisviðs sambandsins, var spurður að því á fundi nefndarinnar hvað hefði orðið til þess að þessi samþykkt var gerð benti hann á að í upphaflegri umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um þetta frumvarp hafi verið bent á að með þessari umræddu grein væri opnað fyrir breytingu á eignarhaldi Landsnets og að sú breyting hlyti að vera umdeild. Einróma samþykkt ellefu manna stjórnar sambandsins gengi lengra en sú umsögn. Þar er tekin skýr pólitísk afstaða til þess grundvallaratriðis hvort einkaaðilar geti orðið eigendur að Landsneti, sem er vegakerfi raforkunnar, og leggur stjórn sambandsins til að þessi grein sem opnar á eignarhald einkaaðila að fyrirtækinu, falli niður.

Í framhaldsnefndaráliti mínu kemur fram að í svörum við spurningum nefndarmanna benti Guðjón Bragason á að ef þessi grein frumvarpsins, 4. gr., sem nú er orðin sú þriðja, verður samþykkt óbreytt skapast ósamræmi á milli 8. gr. raforkulaganna og bráðabirgðaákvæðis XII við sömu lög. Niðurstaðan yrði, að mati sviðsstjóra lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, tvö algerlega misvísandi ákvæði í raforkulögum, sem gæti ekki talist vera góð lagasetning. Þetta er nokkur áfellisdómur að mínu mati yfir þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð.

Hann benti einnig á að í bráðabirgðaákvæði XIII við raforkulögin er kveðið á um að endurskoðun laganna skuli fara fram fyrir árslok 2010 og því væri með öllu ótímabært að breyta 8. gr. laganna eins og lagt er til. Guðjón benti jafnframt á að þau rök að samræma þurfi lagaákvæði um eignarhald á orkufyrirtækjum ættu alls ekki við um Landsnet hf. þar sem fyrirtækið er ekki í samkeppnisrekstri heldur vegakerfi raforkunnar í landinu. Það sér um kerfisstjórn og flutning rafmagns og að mati stjórnar sambandsins ættu einkaaðilar ekki að eiga hlut í því fyrirtæki. Með öðrum orðum, herra forseti, á þessum fundi nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. var áréttuð með skýrum hætti sú afstaða stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að Landsnet ætti að vera áfram alfarið í opinberri eigu.

Ég vil taka það fram að aðstoðarforstjóri Landsnets, sem kom einnig fyrir nefndina, tók fram að fyrirtækið tæki ekki afstöðu til tillagna um breytt eignarhald, slíkt væri hlutverk stjórnmálamanna. Hann benti á að í Bretlandi og í Finnlandi væru systurfyrirtæki Landsnets rekin af almenningshlutafélögum og að hans mati hefðu þau, rétt eins og stóru ríkisfyrirtækin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, náð í fremstu röð óháð eignarhaldi. Það er túlkun meiri hlutans og túlkun iðnaðarráðuneytisins um það hvað gerist þegar svona misvísandi lagaákvæði eru sett inn í raforkulögin. Um túlkun iðnaðarráðuneytisins hlýt ég að vísa til framhaldsálits meiri hluta iðnaðarnefndar. Ég tel þau svör sem þar koma fram allsendis ófullnægjandi og þau svara á engan hátt hinni lögfræðilegu spurningu um það hvort ákvæðið telst rétthærra, heimild sem sett er inn til breytingar í 8. gr. á eignarhaldi Landsnets eða áðurnefnt bráðabirgðaákvæði í sömu lögum.

Þetta bráðabirgðaákvæði var afrakstur og kom í kjölfarið á vinnu svokallaðrar 19 manna nefndar sem sátt náðist að lokum um. Það er vandséð, herra forseti, hvað það er sem dregur ráðuneytið til þess að leggja nú áherslu á aðra niðurstöðu hvað varðar eignarhaldið á Landsneti rétt áður en endurskoðun laganna hefst. Það er a.m.k. ljóst að með þessu taka þingið og ráðuneytið fram fyrir hendurnar á endurskoðunarnefndinni sem er ekki enn tekin til starfa. Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til þess að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort það geti verið að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi ekki aðild að endurskoðunarnefndinni sem nú er að fara í gang varðandi raforkulögin. Það er alveg ljóst að fulltrúar þingflokka eiga aðild að þeirri nefnd samkvæmt lögum en einnig hagsmunaaðilar. Þetta er alltaf spurning um það hverjir eru hagsmunaaðilar. Eru það eigendur raforkufyrirtækjanna og fulltrúar þeirra, Samband íslenskra sveitarfélaga, eða eru það starfsmennirnir sem reka orkufyrirtækin fyrir sveitarfélögin? Það er alveg ljóst að það er kallað eftir Samorku og þessum orkufyrirtækjum öllum að þessari endurskoðun en, herra forseti, ég óska eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra svari því hvort Samband íslenskra sveitarfélaga fær aðild að þeirri vinnu.

Í ítarlegu nefndaráliti, fyrra áliti þeirrar sem hér stendur, kom fram sterkur stuðningur við það markmið frumvarpsins að tryggja að auðlindir sem eru í eigu almennings verði það áfram en jafnframt hef ég lýst miklum efasemdum um aðra þætti frumvarpsins. Það hafa aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs einnig gert. Þessar efasemdir okkar jukust enn við 2. umr. og einkanlega við vinnu nefndarinnar sem einkenndist því miður af stöðugu undanhaldi gagnvart kröfunni um enn frekari markaðsvæðingu í raforkugeiranum. Í stað þess til að mynda að gera kröfu um að opinbert eignarhald væri ætíð tveir þriðju hlutar í sérleyfisrekstri orkufyrirtækjanna er nú eftir nefndarvinnuna aðeins gerð krafa um einfaldan meiri hluta, þ.e. 51%. Í stað þess að banna varanlegt framsal vatnsaflsvirkjana sem eru sjö megavött eða minni, er nú fyrirhugað að draga mörkin við tíu megavött. Það jafngildir því að Mjólkárvirkjun og Andakílsvirkjun séu komnar á söluskrá, verði þetta frumvarp samþykkt óbreytt.

Herra forseti. Ákvæði frumvarpsins um að skipta upp öflugustu orkufyrirtækjum landsmanna og heimila einkaaðilum að kaupa bútana. — Herra forseti. Gæti ég fengið frið fyrir truflun héðan úr hliðarsal? Takk.

Ég var þar komin í máli mínu, herra forseti, að ákvæði frumvarpsins um að skipta upp öflugustu orkufyrirtækjum landsmanna, þeirra á meðal Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, og heimila einkaaðilum að kaupa bútana, ýmist allt að 49% eða að öllu leyti í samkeppnisrekstrinum, stangast algerlega á við þann skilning þeirrar sem hér stendur og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að framleiðsla rafmagns og hitaveita fyrir almennan markað sé samfélagslegt verkefni sem ekki eigi að reka með hagnaðarvon einstaklinga að leiðarljósi. Krafan sem sett er fram í frumvarpinu um uppskiptingu gengur lengra en raforkutilskipun Evrópusambandsins og það er viðurkennt að fyrirtækjalegur aðskilnaður og tvöföld yfirbygging í þessum fyrirtækjum mun kosta mikið fé. Ég hef nefnt það hér áður að við vitum öll hvað forstjórarnir kosta nú til dags. Það er ljóst að reikningurinn fyrir þessa uppskiptingu og tvöföldun mun lenda endanlega á borðum almennra raforkukaupenda, á heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.

Ég ítreka að þau rök sem sett eru fram um að það þurfi að samræma lagaákvæði um Landsnet og dreififyrirtækin með því að opna fyrir þann möguleika að einkaaðilar megi kaupa 49% hlut í Landsneti eru ekki haldbær rök. Landsnet er grunnnet raforkukerfisins. Fyrirtækið ber ábyrgð á öryggisþáttum í raforkuflutningi og kerfisstjórnun. Öll starfsemi Landsnets byggist á sérleyfisrekstri og algeru banni við þátttöku í samkeppnisrekstri. Einkaaðilar eiga ekki erindi inn í slíkan rekstur að mati þeirrar sem hér stendur og ég vísa einnig til þess að erlendis, m.a. í Bretlandi og í Kaliforníu, hefur slík tilhögun bæði leitt til minna afhendingaröryggis og hærra raforkuverðs.

Herra forseti. Eitt atriði undir lokin. Orðalag í þeim greinum frumvarpsins þar sem fjallað er um bann við framsali á „eignarrétti að vatni“ er umhugsunarefni í ljósi þess óleysta ágreinings sem hefur staðið hér á Alþingi Íslendinga um vatnalögin frá 2006. Gildandi vatnalög kveða skýrt á um að landeigendur hafi ekki eignarrétt á vatni heldur aðeins umráða- og hagnýtingarrétt. Þessi ákvæði frumvarpsins, breytingar á þremur lagabálkum þar sem orðin „eignarréttur að vatni“ virðast því ganga gegn þessu meginatriði vatnalaganna sem stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili stóð einhuga vörð um. Um þessar mundir er þetta ágreiningsefni til umfjöllunar í nefnd iðnaðarráðherra og er ekki gert ráð fyrir að nefndin skili af sér fyrr en næsta haust. Þetta orðalag, sem athygli nefndarinnar var vakin á eftir að búið var að taka málið út úr nefnd er, eins og ég segi, umhugsunarefni. Það vekur mér ugg um framhaldið og niðurstöðu þeirrar nefndar sem er að vinna að þessu.

Herra forseti. Við þessa 3. umr. munum við freista þess að koma vitinu fyrir meiri hlutann í þessu máli að því er varðar Landsnet, fá meiri hlutann til þess að sníða af versta agnúann, þ.e. að ætla að ana út í einkavæðingu á Landsneti, á flutningskerfinu, á raforkunni, með bundið fyrir bæði augu vegna þess að það er eins og meiri hlutinn viti ekki á hvaða vegferð hann er. Það er dapurlegt en við hljótum að trúa því að menn hlusti á varnaðarorð flokksbræðra sinna og -systra í Sjálfstæðisflokknum og í Samfylkingunni þar sem helstu ábyrgðaraðilar þeirra flokka í sveitarstjórnarmálum hafa talað mjög skýrt og tekið pólitíska afstöðu gegn sölunni á Landsneti. Ég vænti þess því að það verði breyting á afstöðu meiri hlutans frá því sem verið hefur hingað til við atkvæðagreiðsluna í dag og þá getum við vinstri græn væntanlega stutt önnur meginatriði þessa frumvarps.