135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara og vil gera örstutta grein fyrir því að hverju fyrirvarinn lýtur.

Í fyrsta lagi nær hann til þess að fyrirkomulag skipulagsmála er vissulega svolítið snúið og erfitt þó að ég telji að nefndin hafi náð nokkuð vel utan um það í tillögum sínum og þeim tillögum sem hér eru. En það er vissulega svo að á svæði sem þessu, sem nær inn í þrjú sveitarfélög, getur þetta haft alls konar áhrif, eins og réttilega hefur komið hér fram í umræðunni. Þetta er nú samt fyrirkomulag sem ég held að ætti að geta gengið og svæðið í heild sinni heyrir undir utanríkisráðuneytið.

Að því er varðar flugleiðsöguna þá hef ég nokkrar áhyggjur af því hvernig þeim málum verður fyrir komið í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar að hér á landi þurfi að vera starfandi tvær sjálfstæðar flugleiðsögur, annars vegar á Keflavíkurflugvelli og hins vegar í Reykjavík. Þar liggi þá fyrir að hvað sem hendir á hvorum staðnum fyrir sig, slys, brunar eða annað slíkt, þá sé ævinlega til staðar önnur stöð sem getur algjörlega tekið að sér hlutverkið. Það held ég að sé bara skynsemi út frá öryggissjónarmiðum og ég hef ákveðinn fyrirvara um það hvernig þetta verður í framtíðinni. Ég legg sérstaka áherslu á að við tökum öryggið fram fyrir.