135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[16:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir skýr svör. Ég er sammála honum í því að það gengur auðvitað ekki að taka fyrir það í lögunum að hægt sé að semja til skemmri tíma en 20 ára. Auðvitað þurfum við að virða meginreglu einkaréttarins um samningsfrelsi. Þá þarf að líta á textann í þingskjalinu um breytingartillögu sem er í 3. tölul. a, þannig að þeim texta verði breytt svo að ekki verði um að ræða afdráttarlaust bann um samninga til skemmri tíma en 20 ára, eins og þar stendur.

Varðandi hitt atriðið þá er ég alveg sammála hv. þm. Guðbjarti Hannessyni um að framkvæmdir á lóðum sem unnar hafa verið fyrir gildistöku laganna og eru umtalsverðar, það geta verið byggingarframkvæmdir, það getur verið vegagerð og annað slíkt sem kostar mikið og hefur verið ráðist í án samþykkis landeiganda. Það getur auðvitað ekki leitt af sér skyldu landeiganda til að kaupa það af leigutakanum. Þessi lög geta ekki kallað á þá skyldu ef ekki liggur fyrir að um samþykki landeiganda var að ræða fyrir framkvæmdinni á þeim tíma. Ég er alveg sammála formanni nefndarinnar um að það er hin eðlilega framkvæmd mála.