135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, aðhyllist gjaldfrjálsan grunnskóla og við viljum að hann sé gjaldfrjáls fyrir öll börn vegna þess að við teljum að það tryggi jöfnuðinn best. Við erum ekki flokkur sem sættir sig við það að fátæk börn hafi merkimiða frá félagsþjónustu sem segi að þetta barn sé fátækt og þess vegna eigi að borga fyrir það. Við viljum tryggja öllum börnum sama aðgang að hollum mat í skólanum. Það er tæknilega mismunandi flókið í skólum að útfæra þá hugmynd en ég er algjörlega sannfærð um það og ég treysti skólafólki og þeim sem reka skólana og sveitarfélögunum líka fullkomlega til að útfæra þær tillögur af skynsemi.

Sömuleiðis varðandi tómstundastarfið og lengd viðverunnar. Í samfélagi eins og okkar þar sem foreldrar barna vinna langan vinnudag og fæstir búnir klukkan fjögur eða fimm þegar börn koma heim úr skóla, þá teljum við að það sé ábyrgðarhluti og það sé samábyrgð sem eigi að hvíla á því að börnin hafi skapandi starf í þessari lengdu viðveru. Við erum ekki að tala um að öll íþróttafélögin eigi þar með að verða hluti af grunnskólanum og þannig greidd af sveitarfélaginu. Auðvitað fá íþróttafélögin styrki frá sveitarfélögunum eins og tíðkast en það að búa til innihaldsríkt skólastarf áframhaldandi í lengdu viðverunni er grunnforsenda fyrir því að skóladagur barnanna sé þeim samboðinn. Til dæmis ætti skólahljómsveit eða listgreinar eða hvað sem sett er inn í lengdu viðveruna að vera aðgengilegt fyrir öll börn og það á ekki að setja neina merkimiða á börn í þeim efnum.

Þetta er auðvitað dýrt og sveitarfélög og ríki þurfa að gera samkomulag um hvernig fara eigi í þessi mál og það væri óskandi að Samfylkingin væri búin að hefja máls á þessum hlutum í ríkisstjórnarsamstarfinu. En ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt og þungt undir fæti að eiga þessi mál við Sjálfstæðisflokkinn sem auðvitað er andsnúinn þeim.