135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:13]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrslu hans um efnahagsmál þar sem hann greindi ástandið í tvennt, þ.e. ástandið eins og það er núna, og stafar það annars vegar af alþjóðlegri kreppu og hins vegar innlendri hagstjórn og innlendum aðstæðum. Hann sagði enn fremur að enginn gæti reiknað með að ríkisstjórnin gæti bjargað málum með töfrasprota. Ég held að enginn reikni með því, hvorki við né almenningur í landinu. Ég tel hins vegar að margt hefði mátt sjá fyrir, einkum það sem tengist innlendum aðstæðum og langar mig að gera það að umtalsefni.

Margir hafa orðið til þess, stjórnmálamenn, hagfræðingar og fleiri, að líkja þenslu undanfarinna ára við æðisgengið partí. Ég held að ég hafi síðast heyrt þá líkingu í morgun, á fundi efnahags- og skattanefndar. Menn voru ekki á eitt sáttir um hvernig bregðast ætti við timburmönnunum, hvort rétt væri að þreyja þá í hljóði, taka verkjalyf eða skella í sig afréttara. Líkingin er orðin margtuggð og þvæld en í morgun kom upp í huga minn athugasemd frá góðri konu og hún var á þessa leið: Ef timburmennirnir kæmu á undan fylliríinu drykkjum við örugglega öll dálítið minna. (Gripið fram í.) Við þurfum að horfast í augu við að sá samdráttur sem nú stendur yfir þarf ekki að koma á óvart. Ef við hefðum haft afleiðingarnar í huga hefði kannski margt verið öðruvísi gert.

Lítum á ástandið eins og það er. Við göngum í gegnum samdráttarskeið, sumir vilja kalla það kreppu aðrir ekki, eins og formaður Samfylkingarinnar segir skilmerkilega í Viðskiptablaðinu í gær. En hvaða orð sem við veljum ástandinu liggja ákveðnar staðreyndir ljósar fyrir. Vaxandi vanskil hjá fyrirtækjum, verðbólga í 15%, víðs fjarri yfirlýstu verðbólgumarkmiði Seðlabankans upp á 2,5%, samdráttur í atvinnulífi, fyrirtæki farin að grípa til fjöldauppsagna og þó að atvinnuleysið sé lágt eiga þessar fjöldauppsagnir eftir að koma inn í atvinnuleysistölur. Vextir eru háir, heimili, fyrirtæki og sveitarfélög gríðarlega skuldsett. Margumtalað góðæri og þensla nýttist ekki öllum.

Hvað sjáum við? Jú, láglaunastéttir, umönnunarstéttir, sátu eftir í góðærinu á meðan þeir tekjuháu mökuðu krókinn með himinháum launum, kaupréttarsamningum og alls kyns tilfærslum. Forsendur kjarasamninga frá því í vor eru brostnar. Ljósmæður eru á leiðinni í verkfall. Almenningur í landinu situr uppi með 20% vexti, 15% verðbólgu, síhækkandi lán og síhækkandi matarreikning. Margir mæta hverjum degi með kvíðahnút í maganum af ótta við að endar náist ekki saman, ísskápurinn verði tómur um miðjan mánuð, atvinnurekandinn fari á hausinn þegar ekki fást lengur lán hjá bönkunum enda hefur aðgangur að erlendu lánsfé verið lítill. Spáð er tvöföldun á atvinnuleysi fyrir árslok og sumir kalla það bjartsýnisspár.

Mér fannst vera kjaraskerðingartónn í hæstv. forsætisráðherra þegar hann talaði hér áðan um þjóðarsátt, þegar rætt var um að forsendur kjarasamninga væru brostnar en ekki mætti rjúka til og fara að hækka lægstu launin. Það fannst mér vera kjaraskerðingartónn.

Ég vil líka benda á að þó að ríkisstjórnin búi ekki yfir töfrasprota vöruðum við vinstri græn ítrekað við því að í þetta stefndi, að góðærið væri tekið að láni. Við bentum líka á að taka yrði á viðskiptahalla þegar upp var staðið að loknu árinu 2006 með 26% viðskiptahalla, litla 300 milljarða. Þá var samt talað um góðæri og látið eins og aldrei kæmi að skuldadögum. Við vöruðum við vaxandi skuldasöfnun. Forsætisráðherra talaði hér áðan um að íslenska hagkerfið væri vel í stakk búið til að takast á við samdráttinn en á flestum samanburðarmælikvörðum er Ísland eitt skuldugasta hagkerfi meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Á ég þá einkum við skuldir heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga, ríkissjóður er þar undanskilinn. Það hlýtur því að vera eitt mikilvægasta viðfangsefni íslenskra efnahagsmála að stöðva þessa skuldasöfnun.

Við vöruðum líka við áherslu á blinda stóriðjustefnu með ofvöxnum fjárfestingum fyrir íslenskan þjóðarbúskap en ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna og þeirra efnahagsskilyrða sem þær áttu drjúgan þátt í að skapa drógu úr þrótti og nýsköpun á öðrum sviðum, ýttu beinlínis úr landi umsvifum annarra útflutnings- og samkeppnisgreina og í sumum tilfellum fyrirtækjum í heild sinni. En hæstv. forsætisráðherra er samur við sig í stóriðjustefnunni þó að í ljós hafi komið, t.d. í nýrri skoðanakönnun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan, að þjóðin hefur fengið nóg af þeirri mixtúru.

Nú er hv. þm. Pétur Blöndal farinn úr sal þannig að ég ætla ekki í miklar umræður við hann um Njálu, að bleiku akrarnir og slegnu túnin séu sambærileg við álver okkar tíma. Ég verð samt að benda á að ég held að Gunnar hafi átt við Hallgerði þegar hann nefndi þetta, þannig að ekki held ég að í Njálu megi finna rök fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Við vöruðum við skattalækkunum upp á fleiri tugi milljarða sem voru lögfestar langt fram í tímann. Þær komu einkum hátekjufólki, fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum til góða, mögnuðu þenslu og juku misskiptingu, veiktu undirstöður velferðarkerfisins. Við minntum ítrekað á að byggja þyrfti upp gjaldeyrisvaraforðann og við fögnum því vissulega að nú hafi skref verið stigin í þá átt. Við börðumst líka gegn atlögunni að Íbúðalánasjóði á sínum tíma en hann hefur nú virkað sem öryggisventill á húsnæðismarkaði. Við töluðum einnig fyrir því að stjórnvöld beittu sér fyrir því að jafna kjörin, endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að innviðir samfélagsins, grunnþjónustan og velferðarkerfið, yrðu styrktir til að geta mætt niðursveiflunni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði hverjar tillögur okkar væru. Jú, við lögðum fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum, bæði í vor og nú á haustmánuðum. Við fögnum því, eins og ég sagði, að gjaldeyrisvaraforðinn hafi verið styrktur en það þarf að styrkja hann frekar þannig að hann sé í einhverju samræmi við stærð fjármálakerfisins. Hluta þessa aukna gjaldeyrisforða þarf að leggja inn í Seðlabankann sem aukið eigið fé til að styrkja stöðu hans enn frekar. Þannig á að sýna í verki einbeittan vilja til að endurheimta trúverðugleika hagkerfisins, stöðugleika krónunnar og skjóta stoðum undir traustan íslenskan þjóðarbúskap.

Við höfum lagt til að lög um Seðlabankann verði endurskoðuð, rætt hvort þessi verðlags- og verðbólgumarkmið séu of þröng. Vandséð er að verðbólgumarkmið upp á 2,5% — sem næst ekki árum saman — auki trúverðugleika peningamálastefnunnar. Við viljum endurskoða innra skipulag banka og við viljum að lagaumhverfi fjármálafyrirtækja verði endurskoðað með almannahagsmuni að leiðarljósi, tekið verði á fákeppni og samtryggingu sem hefur fengið að hreiðra um sig óáreitt í fjármálakerfinu. Við viljum skoða möguleika á frekari sveiflujöfnunaraðgerðum í þjóðarbúskapnum, t.d. með stofnframkvæmdum á sviði samgangna og fjarskipta auk eflingar gjaldeyrisvaraforðans, skapa skilyrði til að auka þjóðhagslegan sparnað sem er kominn undir 10% af vergri landsframleiðslu — og endurreisa Þjóðhagsstofnun. Mér fannst um það samhljómur á síðasta þingi, þegar efnahagsmál voru rædd, að Alþingi þyrfti öfluga þjóðhagsstofnun, sem heyrði undir Alþingi, til að hægt væri að taka ígrundaðar ákvarðanir á sviði efnahagsmála.

Hið opinbera þarf að fjárfesta í innviðum íslensks samfélags, öflugu velferðarkerfi. Traustir innviðir eru besta sveiflujöfnunin, góðar samgöngur, greið fjarskipti, öflugt mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi ásamt fjárfestingu í þekkingu, rannsóknum, nýsköpun og þróun er kjarninn sem byggja á utan um. Þekkingin er eina auðlindin sem eykst með því að taka af henni og dreifa henni, hún er mikilvægasta fjárfestingin fyrir okkur og stærsta auðlindin, ekki þær auðlindir sem gengið er á, hinar fýsísku auðlindir landsins. Þetta er góð fjárfesting til langs tíma, gerir Ísland að góðu landi til að búa í, samkeppnisfært út á við í anda þess sem best hefur tekist á norræna vísu. Jafnvel þó að slíkt átak í innviðum samfélagsins og velferðarkerfinu þýði tímabundinn hallarekstur og einhverjar lántökur ríkis og sveitarfélaga getur slíkt verið réttlætanlegt við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir og komum til með að mæta á næstu missirum.

Rætt hefur verið um þjóðarsátt en hún verður aldrei byggð á því að þeir sem hafa lægstu launin borgi brúsann, að umönnunarstéttir, upp til hópa konur, borgi brúsann eða að náttúrunni verði fórnað. Þjóðarsáttin þarf að snúast um að snúa af leið misskiptingar, auka launajöfnuð, efla velferðarkerfið og deila skattbyrðinni á réttlátari hátt þannig að hátekjufólk og fjármagnseigendur fái tækifæri til að taka þátt í samneyslunni, efla fjölbreytt atvinnulíf. Hún byggist á því að við sitjum öll við sama borð.

Sagt hefur verið að það hafi verið ljóst að þenslan hlyti að taka enda. Ég hef eytt nokkru púðri í að líta aftur, minna á að hafa þarf timburmennina í huga áður en glasi er lyft. Það skiptir máli að stjórnvöld sinni hlutverki sínu, standi við það að efna til samráðs, ekki bara við aðila vinnumarkaðarins heldur líka stjórnarandstöðu og aðra þá sem koma að málum, komi á jafnvægi í hagkerfinu án þess að allt fari í voða. Við höfum lagt fram tillögur okkar. Við höfum þá trú að Íslendingar hafi alla möguleika til að komast yfir samdráttinn ef skynsamlega er haldið á spilum og félagsleg hugsun höfð að leiðarljósi.