135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:10]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði í ummæli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan en hef þau nú ekki fyrir framan mig orðrétt. Þar útskýrði hv. þm. það sem helsta kost sjálfstæðs gjaldmiðils að við efnahagslegar þrengingar væri hægt, eins og hann orðaði það — ég held að ég muni það orðrétt — að tryggja að allir tækju á saman. Með því var hann að vísa til þess að hægt væri að hreyfa gengi krónunnar til þess að ná fram efnahagslegum bata. Með öðrum orðum mælti hann einfaldlega með því að við hefðum krónu, sjálfstæða krónu, og að höfuðkosturinn við hana væri sá að það væri þá hægt að ná fram kjaraskerðingu með gengisfellingu. Ég get ekki skilið hvað gengisfelling er annað.

Ef það er orðið svo brýnt fyrir hv. þingmann að forðast að horfast í augu við þann veruleika sem íslenska krónan hefur í för með sér að hann sjái ekki að gengisfellingar þýða kjaraskerðingu fyrir íslenskt launafólk og hafa alltaf þýtt það, áratugum saman, þá er hann á nokkrum villigötum. Hv. þingmaður talar eins og það sé hægt að tala upp gengi krónunnar með því að segja eitthvert bull um það hvað hún er sem hún er alls ekki.

Það vita það allir hver herkostnaður bankanna er af gjaldeyrisvörnum í dag, það er talað um það opinberlega. Hv. þingmaður virðist hins vegar helst vilja loka augum og eyrum fyrir efnahagslegum staðreyndum og þannig reyna að tala upp gengi krónunnar eða að reyna að telja fólki trú um að í henni felist einhver skynsemi fyrir almennt launafólk í landinu.

Ég kalla bara eftir því að hv. þingmaður útskýri það hvernig gengisfellingar undangenginna áratuga hafi orðið til þess að bæta kjör launafólks í landinu. Ég held að það skilji enginn nema þá kannski hann og Ögmundur Jónasson.