135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[19:46]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Þetta er búin að vera löng og að mörgu leyti merkileg umræða hér í dag og ég vil þakka fyrir að Alþingi skuli þó koma saman til umræðu um þessi mál og hefði fyrr mátt vera því að það er mín skoðun að hér séum við að tala um mjög alvarlegan vanda þjóðarbúsins, miklu alvarlegri en stjórnarmeirihlutinn hefur viljað kannast við fram að þessu. Það hefur verið rifjað upp fyrr í dag úr þessu ræðupúlti að mjög langt er síðan því var lýst yfir af hæstv. forsætisráðherra að botninum væri náð. En síðan hefur enn heldur hallað á í hagþróuninni. Samt glímum við enn við það að stjórnarliðar eru bæði margir hverjir afskaplega illa upplýstir um hið raunverulega ástand efnahagsmála og leggja sig í líma við að gera sem minnst úr vandanum.

Það hefur sérstaklega hér í dag í umræðu verið vitnað til fundar sem í morgun var haldinn í efnahags- og skattanefnd Alþingis þar sem komu fulltrúar frá fjármálafyrirtækjum og atvinnulífi og ræddu sína hlið á málinu og margir hafa notað þeirra málflutning til að réttlæta einmitt það sjónarmið að í rauninni sé eiginlega ekkert að, það sé alla vega ekki kreppa, það megi kannski tala um samdrátt og umræðunni hefur verið eytt í slíkar hártoganir. Ég held reyndar að orðið kreppa verði það orð sem sagan mun gefa þessu tímabili og ekki bara hér heldur á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Hvað okkur Íslendinga varðar hygg ég að efnahagslegar afleiðingar af þessum samdrætti núna verði ekki minni en þær voru í heimskreppunni miklu, sem oft er kölluð, 1930. Þá voru aðstæður auðvitað allt aðrar í hagkerfinu og okkar samfélag allt miklu fátækara. En það hafði líka mikil áhrif að það var einangraðra og alþjóðlegir straumar náðu þess vegna ekki inn í stærstu atvinnuvegina nema að litlu leyti.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson vék að því að eftir þennan dag færu stjórnarliðar út úr húsi með þá fullvissu að það væri fullur skilningur á vandanum. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að það er alls ekki þannig. Það er alls ekki þannig að við sem höfum hlýtt á umræður í dag — og það hefðu svo sem mátt fleiri hlýða á þær. Sumarfrí þingmanna hefur verið mjög gott og gefandi og hefði verið full ástæða til að þingmenn hefðu séð sér fært að sitja þingfundinn allan í dag, svo mikilvægt mál sem hér er til umræðu einmitt nú. (Gripið fram í.) Það er að vísu vel mannað í þingsalnum núna. En ég sé samt ástæðu til að koma að því að mér finnst að þingmenn hefðu mátt vera þaulsætnari í þingsalnum einmitt vegna þessa máls.

En akkúrat með því að gera lítið úr þessu og tala um að framtíðin sé björt á Íslandi — vissulega er hún það til lengri tíma litið — en það breytir ekki því að vandinn sem hagkerfið stendur frammi fyrir, vandinn sem bankarnir standa frammi fyrir, er gríðarlegur. Ég kvíði því að margt í þeim vandamálum sé alls ekki komið upp á yfirborðið enn þá hvað varðar hin stærri fyrirtæki og bankana, bæði fjármálastofnanir stórar og smáar, að þar eigi enn eftir að hrikta miklu verr í.

Um vanda heimilanna vitum við miklu meira vegna þess að þar liggur fyrir þessi opinbera tölfræði og við vitum að þúsundir Íslendinga, þúsundir heimila eru læstar í skuldafjötra eftir þá fasteignabólu sem hérna varð, sem er hluti af því þensluskeiði sem hér ríkti og hluti af vandamálum sem skapast við ofurveðsetningu hér rétt eins og vestan hafs. Ofurveðsetning í hinu vestræna kapítalíska kerfi er vandi sem hefur breiðst út um allan hinn vestræna heim og er fráleitt að tengja það eingöngu við húsnæðislán í Bandaríkjunum. Þetta er miklu víðtækara vandamál og þetta er mjög mikið vandamál hér á landi. Við gengisfellingu eins og nú verður þetta vandamál og þá skapar þetta vandamál á mjög mörgum sviðum, neikvæða eiginfjárstöðu, og skapar vanda. Sérstaklega ef það verða í sama mund áföll í hagkerfinu, atvinnuleysi, tekjubrestur af einhverjum ástæðum hjá fyrirtækjum og einstaklingum þá getur þetta skapað mjög mikil vandamál. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að ríkisstjórnin leggi allt sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir að svona þróun verði jafnvel þó það kosti skattgreiðendur nokkurt fé eins og til dæmis það gerir að auka gjaldeyrisvaraforðann og ég lýsi yfir ánægju með þó það skref sem þar hefur verið stigið nú og hæstv. forsætisráðherra tilkynnti um í dag. En ég held að meira þurfi að gera.

Vandamálið í þessari stöðu nú er ekki hvað síst það að við vitum ekkert á hvaða leið ríkisstjórnin er í þessum efnum. Við vitum ekkert hvað er næst á döfinni. Hér hafa talað ráðherrar og stjórnarliðar. En við erum engu nær um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að beita þeim helstu hagstjórnartækjum sem hún hefur yfir að ráða, sem eru fjárlögin fyrst og fremst. Þess utan vitum við heldur ekki hvort ríkisstjórnin ætlar að láta Seðlabankanum haldast það uppi enn og áfram um ókomna mánuði að keyra hér á allt of háum stýrivöxtum sem stórskaðar atvinnulífið og getur gert kreppuna og erfiðleikana miklu dýpri.

Við heyrum á talsmönnum Samfylkingarinnar í umræðunni í dag að þeir telja fulla ástæðu til að stýrivöxtum sé haldið sem hæstum til að koma í veg fyrir að hér verði framkvæmdafyllirí, til að koma í veg fyrir það. Við höfum heyrt orð töluð á þessum nótum af fleiri en einum af fulltrúum þess ágæta flokks og talsmaður flokksins, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talaði um þá erfiðleika sem eru í hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi sem hálfgerðar náttúruhamfarir og í næstu setningu talaði hún síðan um hina háu stýrivexti og ég veit ekki nema það sé þá jafnvel skoðun innan þess flokks að háir stýrivextir Seðlabankans og stjórnarlag innan þess banka séu líka einhvers konar náttúruhamfarir.

Mér þykir það ekki mjög rismikil stjórnarstefna að telja sig ekki geta haft nokkur tök á hlutum eins og Seðlabanka og allsendis óviðunandi að stjórnarliðar og ráðherrar skuli tala þannig sýknt og heilagt — þeir hafa gert það í raun töluvert alla þá tíð sem þessi ríkisstjórn hefur setið — eins og Seðlabankinn í landinu sé fjórða valdið, eins og hann sé algjörlega sjálfstæð stjórnarstofnun með enga pólitíska ábyrgð, þ.e. sem ráðherrar beri enga pólitíska ábyrgð á. Það er auðvitað ekki svo. Valdið á Íslandi er þrískipt, ekki fjórskipt. Það hefur ekki verið gerð nein grundvallarbreyting í stjórnskipun landsins og meðan svo er hljótum við að líta svo á að forsætisráðherra beri ábyrgð á stefnu Seðlabankans. Öðruvísi er það ekki.

Hitt stjórntækið sem ég vék að, sem er ekki síður mikilvægt að ríkisstjórnin beiti, eru fjárlögin og við erum af ræðum hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, og af ræðum annarra stjórnarliða engu nær um það hvernig fjárlögunum verður beitt, hvort farin verði sú leið sem ég tel æskilega nú, að ríkisvaldið beitti sér fyrir arðvænlegum fjárfestingum og þyrði að koma þannig til móts við samdráttinn, nokkuð sem var reyndar haft á orði hér fyrir ári síðan og var alls ekki tímabært þá (Forseti hringir.) enda hefur það sannað sig að atvinnuleysi hefur í raun ekki látið á sér kræla (Forseti hringir.) að neinu marki fram að þessu (Forseti hringir.) En það er rétt bak við leitið.