135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:17]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi skilið ræðu mína sem árás á umhverfisráðherra. Ræðu minni var ekki beint sem árás á umhverfisráðherra en hún ber auðvitað ákveðið vitni um að það er ekki samhljómur í ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli og það hefur margkomið fram í þessari umræðu og áður. Ég er að leggja áherslu á það sem ég tel að sé ákaflega mikilvægt í þessu. Auðvitað berum við okkar ábyrgð ásamt þjóðum heims á losun gróðurhúsalofttegunda. Það hvarflar ekki annað að mér en að við tökum þátt í því en að við gerum það með því að kasta fyrir róða hagsmunum þjóðarinnar umfram það sem aðrar þjóðir gera dettur mér ekki í hug að standa fyrir. Við höfum þessar náttúruauðlindir til að byggja á, sjálfbæra nýtingu þessara náttúruauðlinda til að byggja á framtíðaratvinnustarfsemi í landinu. Og það þýðir ekkert að segja, eins og hv. formaður vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, sagði í ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum dögum að Íslendingar hefðu alla burði og næga möguleika, þekkingu, mannauð og auðlindir til að nýta með skynsamlegum og sjálfbærum hætti, þannig að hér eftir sem hingað til verði forsendur til framþróunar, velmegunar og velferðarsamfélags í fremstu röð í sígildum, norrænum anda. (SJS: Þetta er skínandi vel sagt.) Já, þetta er skínandi vel mælt en þetta mega bara ekki vera orðin tóm, hv. þingmaður, vegna (Forseti hringir.) þess að orðin tóm vigta ekki á vogarskál lífsafkomunnar. (Forseti hringir.) Það verður að vera eitthvað á bak við þau.